Geitur hópast saman í fyrsta sinn

„Vertu geitin sem þig hefur alltaf dreymt um að vera,“ segir um undarlega geitaherminn sem snýr aftur í haust, í þriðja sinn.

Framleiðsluverið Coffee Stain hefur nú tilkynnt um Goat Simulator 3, þriðja geitaherminn í leikjaröðinni. Leikurinn kemur út í haust á þessu ári, en enginn sérstakur útgáfudagur hefur verið gefinn upp.

Nýji geitahermirinn mun meðal annars gefa leikmönnum tækifæri á slá klaufum saman með fleiri geitum í fyrsta skiptið. Þá geta allt að þrjár geitur ráfað saman um göturnar og gert allt vitlaust.

Ásættanlegt magn nýs efnis

„Í þetta skiptið réðum við „leikjahönnuði“ og var okkur sagt að þeir bættu við „ásættanlegu magni af efni,“ segir um leikinn á vefverslun Epic Games

Umræddir leikjahönnuðir hafa bætt við viðburðum, óspilanlegum persónum, smáleikjum, eðlisfræði, páskaeggjum, lygum, svikum og ástarsorg ásamt fleiru í leikinn.

Fjöldi leyndarmála, verkefna og safngripa bíða eftir leikmönnum í þessum þriðju persónu-sandkassaleik með bættri grafík og nýjum upplifunum.

Heimskulegur leikur

„Goat Simulator 3 er annar gjörsamlega heimskulegur leikur. Mun þessi leikur kenna þér að sameinast hjörðinni? Örugglega ekki. Að læra um raunverulegar geitur með David Attenborough eða eitthvað myndi án efa vera skynsamlegra að gera.“

Sem fyrr segir styður leikurinn við fjölspilunn í fyrsta sinn, en þá geta leikmenn stangað, sleikt og stokkið um allar trissur San Angora með vinum sínum, öðrum geitum.

Hægt verður að spila leikinn á Xbox, PlayStation og á PC-tölvum í gegnum Epic Games Store. Hvort að leikurinn verði aðgengilegur til kaups í gegnum Steam hefur ekki verið gefið upp þó líklegt sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert