Sýna bakvið tjöldin við gerð Arcane

Bridging The Rift sýnir bakvið tjöldin við gerð teiknimyndaröðinnar Arcane.
Bridging The Rift sýnir bakvið tjöldin við gerð teiknimyndaröðinnar Arcane. Grafík/Riot Games

Tölvuleikjafyrirtækið Riot Games fer af stað með þáttaröðina Bridging The Rift, sem sýnir bakvið tjöldin við gerð vinsælu þáttaröðinnar Arcane. 

Bridging The Rift hefst á fimmtudegi þann 4. ágúst á opinbera YouTube-aðgangi Riot Games, og sýnir áhorfendum bakvið tjöldin í Arcane með fimm vikulegum þáttum.

Sló í gegn

Teiknimyndaröðin Arcane sló í gegn þegar hún fór í loftið seint á síðasta ári. Hún var gerð af Riot Games og Fortiche Production og veitir áhorfendum dýpri innsýn inn í tölvuleikinn League of Legends.

Áhorfendur fylgjast með systrunum Jinx og Vi í háþróuðu borginni Piltover og neðanjarðar undirheima-borginni Zaun. Sagan segir frá uppruna þeirra og kraftinum sem aðskildi þær frá hvor annarri.

Þáttaröðin var sýnd á Netflix og hlaut mjög góða dóma, en á Imdb skoraði hún 9,1 af 10 og 100% á Rotten Tomatoes.

Unnið fjölda verðlauna

Arcane kom sér fljótt í fyrsta sætið á vinsældarlista Netflix og sat þar í þrjár vikur samfleytt. Þar fyrir utan hlaut hún fjölda verðlauna, þar á meðal níu Annie-verðlaun og þemalagið Enemy frá Imagine Dragons náði fyrsta sætinu á vinsældarlista Billboard.

Nú þegar hefur tilkynnt um aðra þáttaröð en enginn útgáfudagur hefur verið gefinn upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert