Taktu þátt í danskeppni Fortnite

Hreyfingar og dansspor innan tölvuleiksins Fortnite hafa verið hvað mest einkennandi fyrir leikinn. Þá hafa aðdáendur margir hverjir apað upp eftir hinum ýmsu danssporum sem finnast þar.

Í dag hófst sérstök Fortnite-danskeppni, þar sem þátttakendur búa til sinn eigin dans eða hreyfingu og senda inn. 

Dans eða hreyfing sigurvegarans verður svo innleidd í leikinn ásamt því að sigurvegari hlýtur rúmlega 330.000 íslenskar krónur í verðlaunafé og eignast hreyfinguna sína innanleikjar.

Fleira þarf í dansinn en fagra skóna

Þátttakan er einföld og felst bara í því að búa til sitt eigið dansspor eða hreyfingu. Þá þarf þátttakandi að birta myndband af sér að framkvæma dansinn, eða hreyfinguna, á samfélagsmiðlunum TikTok eða Instagram. 

Frestur til innsendinga í keppnina er til klukkan 03:59 á íslenskum tíma þann 16. júní, en myndböndin þarf að merkja með myllumerkjunum #EmoteRoyale2022 og #contest.

Mikilvægt að merkja

Hver þátttakandi má aðeins senda inn eina hreyfingu og í tilkynningu leggur Epic Games sérstaka áherslu á að merkja myndböndin með báðum myllumerkjum, en allar reglurnar um þátttöku má finna hér.

Vilji þátttakandi nota sína eigin tónlist með myndbandinu, þarf fyrst að notast við eitthvað af útlistuðum lögum frá Fortnite. Lögin frá Fortnite er hægt að sækja neðst í tilkynningunni ásamt hljóðbrellum. 

mbl.is