Nýr leikur opinberaður og sá fyrri gefinn

Á Xbox- og Bethesda-kynningunni sem fór fram í gær, kom í ljós að Ark 2 mun koma út á næsta ári, og verður aðgengilegur í gegnum Xbox Game Pass frá fyrsta degi.

Hér að ofan má sjá kynningarstiklu Ark 2. Þar má sjá Vin Diesel ríða risaeðlu, en það er setning sem blaðamaður hafði aldrei áður ímyndað sér að skrifa.

Frí eintök af leiknum

Til fögnuðar um væntanlega útgáfu Ark 2 hefur framleiðsluverið Wildcard ákveðið að gefa upprunalega leikinn, Ark: Survival Evolved.

Vert er að nefna að Jón Konráðsson, einnig þekktur sem Asmodeus Cruentus, hefur verið að setja upp íslenska netþjóna í þessum leik.

Hægt að kúka

Ark: Survival Evolved kom fyrst út í forútgáfu árið 2015 og gaf leikmönnum tækifæri til þess að ríða á risaeðlum og láta persónur sínar kúka.

Áður en forútgáfa leiksins kláraðist, árið 2017, hafði leikurinn hlotið uppfærslur sem m.a. gerði skeggvöxt raunverulegan, en þá óx skegg leikmanna innanleikjar. 

Leikurinn verður í boði gjaldfrjálst fram á sunnudaginn þann 19. júní, en hér má finna Steam-síðu Ark 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert