Er Call of Duty á leiðinni í opinn heim?

Modern Warfare II var kynntur með loforði um nýja tíma …
Modern Warfare II var kynntur með loforði um nýja tíma í sögu Call of Duty. Hvað það þýðir, getur tíminn einn leitt í ljós. Grafík/Activision Blizzard

Gæti Call of Duty-hlutverkaleikur í opnum heim verið í vinnslu?

Þróunaraðilarnir hjá Infinity Ward eru um þessar mundir að vinna hörðum höndum að því að klára nýjasta CoD-leikinn, Modern Warfare II sem á að koma út í október. Á sama tíma benda starfsauglýsingar til þess að mögulega sé leikur í opnum heim í bígerð.

Með tilkynningunni um Modern Warfare II fylgdi loforð um „nýja tíma í sögu Call of Duty“. Burtséð frá nýja Modern Warfare II og eftirfylgni með Warzone, gæti framleiðsluverið verið með eitthvað nýtt og öðruvísi verkefni í gangi líka.

Náði að taka skjáskot

Ný starfsauglýsing sagði fyrirtækið Infinity Ward vera að leita að „sögustjóra fyrir ónefnt AAA-verkefni“ í pólska framleiðsluverinu þeirra.

Þó að auglýsingin hafi verið fjarlægð skömmu síðar, náði Twitter-notandinn Faizan Shaikh að taka skjáskot af henni og birta á samfélagsmiðlum. 

Á að útfæra sögu og kvikmyndaupplifun

Í starfslýsingunni kemur fram að eitt hlutverkið sé að „útfæra bestu sögu- og kvikmyndaupplifunina í boði í hlutverkaleik í opnum heim“ og með áherslu á söguna, persónurnar, baksöguna og uppbyggingu heimsins.

Ljóst er að einhvers konar hlutverkaleikur í Call of Duty sé í þróun og þá í opnum heimi, en þetta verður þá fyrsti óhefðbundni Call of Duty-leikur sem Infinity Ward hefur nokkurn tímann unnið að. 

Óvíst er hvenær verður tilkynnt um þennan leik þar sem hann virðist vera á byrjunarstigi í þróun.

mbl.is