Nýir netþjónar bjóða nýtt upphaf

World of Warcraft Classic: Wrath of the Lich King.
World of Warcraft Classic: Wrath of the Lich King. Grafík/Activision Blizzard

Einn vinsælasti aukapakkinn í sögu World of Warcraft, Wrath of the Lich King, kemur út á þessu ári fyrir WoW Classic en enginn staðfestur útgáfudagur hefur verið gefinn upp.

Blizzard hefur nú sett upp nýja netþjóna sem bjóða „nýtt upphaf“, en það bendir jafnframt til þess að stutt sé í útgáfu Wrath of the Litch King. 

Allir byrja á sama stað

Tilkynnt var um Nýtt Upphaf-netþjónana með bloggfærslu, en þeir eru í ætlaðir leikmönnum sem vilja búa til nýja persónu og spila með öðrum sem eru á sama báti. 

„Við reiknum með að fjöldi nýrra Classic-leikmanna sláist í för með okkur í fyrsta sinn í Wrath of the Lich King, og sumir þeirra gætu haft áhyggjur af því að dragast aftur úr,“ segir í tilkynningunni

Þá segir í tilkynningu að þessir netþjónar gætu gefið leikmönnum tækifæri til að „upplifa sig í jafnari stöðu en áður“.


Nokkur skilyrði

Ákveðin skilyrði fylgja þó Nýtt Upphaf-netþjónunum. Til dæmis verður ekki hægt að „boosta“ persónuna sína eða flytja aðra persónu yfir á þá fyrstu 90 dagana að lágmarki.

Þar að auki verður ekki hægt að búa til Death Knight-persónu á þeim fyrr en leikmaður hefur komið annarri persónu, á sama netþjóni, upp í reynsluþrep 55. 

Allt efnið úr WoW Classic og Burning Crusade verður aðgengilegt á þessum netþjónum en Northrend verður læst fram að útgáfu Wrath of the Lich King.

Eru mjög spenntir

Þróunaraðilar vonast eftir því að sjá leikmenn dreifa sér um alla aðgengilegu netþjónana og benda á að það styttist ört í útgáfu Wrath of the Lich King.

„Við erum mjög spennt yfir þessu öllu, og við vonum að þið séuð það líka. Við sjáumst í Azeroth!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert