Landsliðsmaður þjálfar á sumarnámskeiði

Rafíþróttadeild Keflavíkur er einnig þekkt sem Rafík.
Rafíþróttadeild Keflavíkur er einnig þekkt sem Rafík. Ljósmynd/Rafík

Börn í Keflavík þurfa ekki að leita langt til þess að sækja sér þjálfun í rafíþróttum í sumar. Rafíþróttadeild Keflavíkur, Rafík, heldur námskeið fyrir börn sem vilja bæta sig í rafíþróttum eða jafnvel bara prófa.

Námskeiðin eru ætluð börnum á aldrinum átta til þrettán ára og verður þeim skipt upp í tvo aldurshópa. Þá æfa börn á aldrinum átta til tíu ára saman og börn frá ellefu til þrettán ára æfa saman.

Hefur mikla reynslu sjálfur

„Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að kynna iðkendur fyrir ýmsum tölvuleikjum, hópefli, félagslegra samveru og góða hreyfingu,“ segir í tilkynningu frá Rafík og munu öll námskeiðin enda á skemmtidegi og veislu.

Alexander Aron Hannesson mun sjá um alla þjálfun á námskeiðinu, en hann er umsjónarmaður landsliðsins í FIFA sem og fyrrum landsliðsmaður sjálfur.

Mynda vináttu utan æfinga

„Það er ótrúlegt að fylgjast með krökkunum á æfingum hjá mér kynnast betur og betur með deginum og byrja að mynda vináttu utan æfinga ,“ segir Alexander í samtali við mbl.is og bætir við að samskipti, vinátta og eintóm skemmtun séu lýsandi fyrir rafíþróttir.

„Þau eru í „þægindarammanum sínum“ í tölvuleikjum og maður sér hvað öll feimni og ótti flýgur út um gluggann þegar þau detta í þennan heim.“

Námskeiðin standa saman af spilun, hreyfingu innandyra jafnt sem utandyra ásamt nestispásum þar sem iðkendur fá tíma til þess að kynnast hver öðrum betur.

„Ég hugsa að 90% af þeim vinum sem maður á í dag séu vinir sem maður hefur kynnst í gegnum tölvuleiki og tengt sem best við á því sviði,“ segir Alexander um sína reynslu af íþróttinni.

Skráning þegar hafin

Fyrsta námskeiðið hefst á mánudaginn 20. júní og stendur fram að 1. júlí, en síðasta námskeiðið hefst 18. júlí og lýkur þann 29. júlí. 

Skráning á námskeiðin er opin og má finna hana með því að fylgja þessum hlekk.

Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar um námskeiðið geta sent fyrirspurnir á netfangið rafik.keflavik@gmail.com.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert