Perlan afhjúpuð í Valorant

Í dag opinberaði Riot Games fyrsta hlutann af Dimension, sem er fimmti þátturinn í Valorant og fer í loftið þann 22. júní.

Leikmenn eiga von á nýju korti sem fær innblástur sinn frá Portúgal ásamt nýjum bardagapassa, rank-titil,  búningalínu og fleiru.

Riot Games byrjaði að sýna frá kortinu í síðasta mánuði, þegar það birti mynd af börnum að skoða risastóran kolkrabba í fiskabúri.

Á bólakafi í sjónum

Kortið heitir Perla og er það áttunda í leiknum, en er nokkuð frábrugðið þeim fyrri þar sem þetta er fyrsta kortið sem er staðsett í Omega-Jörðinni.

Í Perlunni keppa leikmenn í borg neðansjávar á þremur brautum og má sjá myndband af spilun kortsins í myndbandinu hér að ofan.

Perlan er nýtt kort í tölvuleiknum Valorant.
Perlan er nýtt kort í tölvuleiknum Valorant. Grafík/Riot Games

Perlan fær innblástur sinn frá Portúgal og portúgalskri menningu, sem sést einna helst þegar horft er til húsanna. Vert er að nefna að nokkur svæði Perlunnar eru hönnuð af portúgölskum listamönnum.

Fyrstu tvær vikurnar eftir útgáfu verður hægt að spila Perluna utan ranks, en eftir það verður hún innleidd í keppnisbundna spilun.

Ástæðan fyrir því er svo að leikmenn fái tækifæri til þess að kynnast Perlunni og fá tilfinningu fyrir því hvernig er að spila í henni.

Of margir í Brons- og Silvur

Nýr rank-titill er líka væntanlegur, Ascendant. Hann verður fyrir ofan Diamond og undir Immortal.

Í tilkynningu segir að þróunaraðilar hafi endurskoðað rank-skiptinguna og komist að þeirri niðurstöðu að það væru of margir leikmenn í Brons- og Silvur-ranki - sem ættu ekki endilega heima þar. 

„Í staðinn fyrir að fjölga leikmönnum í hærri rönkum Platínum og Diamond, ákváð teymið að búa til „Ascendant“ - sem viðheldur upphefðinni á sama tíma og það hjálpar til við að skilgreina betur getu leikmanna í hverju ranki.“

Undanfari Glundroðans (e. Prelude to Chaos) er ný búningalína í …
Undanfari Glundroðans (e. Prelude to Chaos) er ný búningalína í Valorant sem fylgir með Dimension, fyrsta hluta fimmta kafla leiksins. Grafík/Riot Games

Ný búningalína af stað

Fyrir utan nýja kortið, bardagapassann og rank-titilinn var ný búningalína kynnt til leiks, Prelude to Chaos eða Undanfari Glundroðans á íslensku.

„Smíðuð í eld og eyðileggingu, Undanfari Glundroðans þekkir ekkert nema blóðbað. Drynjandi óp hennar eyðileggur allt sem á vegi hennar verður, hvort sem það er maður, djöfull, eða hið óþekkta,“ segir í tilkynningu um línuna.

Hún er í myrkum og skörpum stíl með vísindaskáldsögu-ívafi og verður fjöldi slíkra búninga í boði fyrir vopn, vopnakrútt (e. gun buddies), leikmannaspil og sprey.

Öll uppfærsluatriði er að finna á opinberu heimasíðu leiksins.

mbl.is