Söfnuðu 360 þúsund krónum með streymi

Óla Blöndal förðuð sem Harley Quinn.
Óla Blöndal förðuð sem Harley Quinn. Ljósmynd/Aðsend

Fyrr í vikunni blés Óla Blöndal til sérstaks afmælisstreymis þar sem spilaðir voru ýmsir leikir og spjallað við gesti og áhorfendur.

Í beinu framhaldi af því, eða daginn eftir, tók hún þátt í góðgerðarstreymi sem skilaði 380.000 krónum fyrir fjölskyldur í Texas.

Síðastliðinn sunnudag fór afmælisstreymið hennar Ólu fram og var þá meðal annars spilaður ákveðinn teiknileikur. Þá var þátttakendum skipt upp í lið og látin ýmist teikna eða giska á hvað var verið að teikna. 

Þar að auki var leikurinn „ég hef aldrei“ spilaður og segir Óla í samtali við mbl.is að hann hafi ekki verið við hæfi barna.

Hægt er að horfa á afmælisstreymið í heild sinni á Twitch-rás Ólu undir nafninu olalitla96, eða með því að fylgja þessum hlekk.

Tóku höndum saman

Góðgerðarstreymið fór síðan fram á mánudeginum. Var það streymandinn TheBrokeDadGaming sem fékk Ólu og fleiri með sér í lið til þess að safna fé fyrir fjölskyldur sem urðu fyrir áhrifum skotárásarinnar í Texas.

Þá fór fram einskonar boltastreymi, þar sem átta streymandar skiptust á að halda uppi streyminu, skemmta áhorfendum og safna fé.

Stóð vaktina til klukkan fimm

Óla var sjálf í beinni útsendingu frá klukkan 17:00 til 19:00 á íslenskum tíma en veitti aðstoð sína við streymið frá byrjun til enda. Svefnfriður Ólu var því af skornum skammti þar sem að streymið kláraðist ekki fyrr en klukkan 05:00 um nóttina

„Ég náði að safna rúmlega 35.000 krónum. Svo var ég á öllum hinum streymunum á fullu að setja GoFundMe-hlekkinn og hvetja fólk til að deila þessu áfram og svona,“ segir Óla.

„Við náðum að safna 380.000 krónum í heildina!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert