Greinir frá smáatriðum um Diablo IV

Diablo IV kemur út á næsta ári.
Diablo IV kemur út á næsta ári. Grafík/Activision Blizzard

Leikjastjóri Diablo IV, Joe Shely, greinir frá hæsta reynsluþrepi leiksins ásamt nokkrum smáatriðum um lengd söguþráðsins, uppfærslum á persónum og endurkomu Paragon-borðsins.

Í viðtali hjá Gamespot segir Shely að söguþráðurinn í Diablo IV muni taka um 35 klukkustundir að klára og er reiknað með að leikmenn hafi þá unnið sig upp í reynsluþrep 45.

Margt í boði eftir söguþráðinn

Leikmenn geta þó unnið sig upp í reynsluþrep 100 og mun fullt af efni og verkefnum taka við eftir söguþráðinn. Við 100. reynsluþrep opnast fyrir fjölbreytt leikloka-efni á borð við martraðadýflissur og nýtt verðlaunakerfi, Tree of Whispers eða Hvísltré á íslensku.

Samkvæmt Blizzard býður Hvísltréð upp á hringrás breytilegra verkefna og verðlauna sem gefa af sér sjaldgæfan efnivið til föndurs og goðsagnarkennda hluti.

„Þú færð aðgang að hvíslum, þú færð aðgang að martraðardýflissum og öðrum leikloka-afþreyingum sem við erum ennþá að vinna í,“ segir Shely.

„Okkur langar virkilega til þess að þú hafir um fjölbreytta afþreyingu að velja. Og að sjálfsögðu færðu heimstöflu sem leyfir þér að klifra á toppinn, sem gengur úr skugga um að erfiðleikastig heimsins sé í samræmi við kraftana sem reynsluþrep persónu þinnar býr að.“

Breytingar á Paragon-borðinu

Shely greindi einnig frá smáatriðum í sambandi við endurkomu Paragon-borðsins, sem var til staðar í Diablo 3 og Diablo Immortal. Paragon-borðið veitir leikmönnum þróaðari og öflugari uppfærslur eftir að leikmaður kemst í hæsta reynsluþrepið.

Paragon-borðið í Diablo IV verður aðgengilegt leikmönnum eftir að hafa náð upp í reynsluþrep 50. Ekki hefur verið staðfest hvernig Paragon-stigum er aflað, en líklega fá leikmenn fjögur stig í hverju reynsluþrepi - þá eitt stig fyrir hvern fjórðungshluta þrepsins.

Ólíkt Paragon-borðinu í Diablo 3, þar sem engin takmörk voru fyrir uppfærslum persóna, verður þá aðeins hægt að vinna sér inn 200 stig í Diablo IV til þess að nýta í uppfærslur.

Hvattir til að vanda valið

Sú breyting gæti komið í veg fyrir að leikmenn verði svo öflugir að þeir sigri allar leikloka-áskoranirnar of auðveldlega og fái leið á leiknum. Þar að auki gæti það hvatt leikmenn til þess að vanda valið betur við uppfærslu persónunnar.

Uppfærslur í Paragon-borðinu eru settar upp með einskonar brautarleiðum, þar sem að keypt uppfærsla opnar fyrir aðrar á sömu braut. Þá þurfa leikmenn að velja sér braut og halda sig við hana.

Enginn staðfestur útgáfudagur hefur verið gefinn upp fyrir leikinn, en áætluð útgáfa er einhvern tímann á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert