Víkingasveitinni komið fyrir í leik

Víkingasveitin lætur til skarar skríða í Ready or Not með …
Víkingasveitin lætur til skarar skríða í Ready or Not með moddi frá Hafsteini Helgasyni. Grafík/Void Interactive/Hafsteinn Helgason

Tölvuleikjaspilarar þekkja flestir hugtakið „að modda“ eða notast jafnvel við ýmis mod í tölvuleikjum sér til skemmtunar. Íslenskir tölvuleikjaspilarar eru engin undantekning þar og hanna sín eigin íslensku mod.

Hafsteinn Helgason er 28 ára gamall og spilar fyrstu persónu-skotleikinn Ready or Not sem kom út í desember á síðasta ári. 

Tók á skarið og lærði það

Í samtali við mbl.is segir hann samfélagið í leiknum vera duglegt að modda leikinn eftir sérsveitum sinna landa, en enginn hafði búð til mod fyrir íslensku Víkingasveitina í leiknum.

Þá ákvað hann taka á skarið, læra þrívíddarhönnun og færa Víkingasveitina inn í hinn stafræna heim Ready or Not.

Hafsteinn Helgason færði Víkingasveitina í tölvuleikinn Ready or Not með …
Hafsteinn Helgason færði Víkingasveitina í tölvuleikinn Ready or Not með moddi. Ljósmynd/Aðsend

Hafsteinn hefur nú moddað leikinn í anda Víkingasveitarinnar með því að byggja líkön með þrívíddarmöskvun og lita þau í framhaldi. Þannig hefur hann getað breytt búnaði, merkingum og klæðnaði í leiknum.

Jafnvel tungumálinu líka

„Planið var að læra betur á þetta allt saman,“ segir Hafsteinn í samtali við mbl.is.

„Svo ef ég get breytt öðrum búnaði, bílunum og öðru, gæti vel verið að maður breyti tungumálinu líka. En þetta tekur allt náttúrulega góðan tíma svo ég bara sé til hversu langt maður kemst með þetta.“

Þetta er í fyrsta skiptið sem Hafsteinn býr til mod og styður hann sig við ákveðinn leiðsöguvef fyrir moddara. Þegar líkönin eru klár notar hann Unreal 4-vélina til þess að gera þau nothæf innanleikjar.

Hægt að gera hvað sem er

„Þetta er bara upp á gamanið. Svo lærir maður á Unreal 4-vélina í gegnum þetta allt saman, sem er góð stoð til þess að læra á nýju Unreal 5-vélina,“ segir Hafsteinn og bendir á að það sé hægt að gera allt með henni.

„Þá er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi, hvort sem maður vill gera sinn eigin tölvuleik eða stuttmynd. Hvað sem kemur til.“

Hægt er að nálgast moddið með því að fylgja þessum hlekk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert