Krafinn um milljarð fyrir að þykjast vera starfsmaður

Bungie.
Bungie. Grafík/Bungie

Tölvuleikjafyrirtækið Bungie hefur höfðað mál gegn Nicholas Minor fyrir að þykjast vera starfsmaður hjá sér og krefur hann um rúman milljarð í skaðabætur.

Samkvæmt Bungie hafði Minor fengið viðvörun frá CSC- Global, fyrirtæki sem hefur það hlutverk að vernda vörumerki Bungie, í desember á síðasta ári.

Var hann þá beðinn um að fjarlægja Destiny 2-myndbönd af YouTube-rásinni sinni, Lord Nazo, vegna brots á höfundarrétti. Minor er sagður hafa neitað því, sem endaði á því að YouTube fjarlægði þau í janúar. 

Talið vera í hefndarskyni

Síðastliðinn febrúar birti Minor annað myndband með lagi úr Destiny-leiknum á Lord Nazo-rásinni og fékk þá opinbera viðvörun frá Bungie.

Í framhaldi af því er Minor sakaður um að hafa búið til fjölda falskra netfanga og sent viðvaranir til annarra efnishöfunda á YouTube í nafni fyrirtækisins.

Bungie komst að því sem Minor var að gera eftir að hafa fengið send gögn frá Google um nýlegar viðvaranir sem áttu að hafa verið sendar frá CSC. Gögnin innihéldu meðal annars IP-tölu tölvunnar sem sendi út viðvarirnar.

Fyrirtækið segir Minor hafa byrjað á þessarri herferð til þess að skaða orðspor Bungie á meðal leikmanna og Destiny-samfélagsins sem einskonar hefndaraðgerð.

Tók sjálfur þátt í umræðunni

Bungie staðhæfir jafnframt að samhliða því að senda fölsku viðvarirnar, notaði hann Lord Nazo-aðganginn sinn til þess að dreifa röngum upplýsingum um fyrirtækið og bylgju viðvarana á efni vegna brots á höfundarrétti. Þá þeirri bylgju sem hann sjálfur stóð fyrir.

Í skýrslu frá Bungie segir að þetta hafi gerst 96 sinnum.

„Minor sendi DMCA-viðvaranir að því er talið fyrir hönd Bungie, þar sem hann skilgreindi sig sem aðila frá vörumerkjavernd Bungie til þess að láta YouTube skipa saklausum efnishöfundum fyrir um að fjarlægja myndböndin sín úr Destiny 2 eða eiga von á höfundarréttarmáli, sem truflaði leikmanna-, streymanda-, og aðdáendasamfélag Bungie,“ segir í skýrslu.

„Á meðan tók „Lord Nazo“ þátt í umræðu samfélagsins um fjarlægingar og viðvaranir frá Bungie og að dreifa röngum upplýsingum.“

Samfélagið ráðvillt og Bungie í klípu

„Þetta olli gríðarlegum skaða á orðspori sem og efnahagi af augljósum ástæðum. Eins og rætt er hér að neðan, var Destiny-samfélagið ráðvillt og í uppnámi, trúandi því að Bungie hafði brotið loforðið sitt um að leyfa leikmönnum að byggja upp sitt eigin streymissamfélag og YouTube-rásir fyrir Destiny 2-efni.“

„Bungie þurfti að verja umtalsverðu fjármagni til þess að takast á við þetta og hjálpa leikmönnum við að endurheimta myndböndin sín og rásirnar.“

Fyrirtækið sækist nú eftir 7,6 milljónum bandaríkjadala í skaðabætur, en það gerir rúman milljarð íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert