Kveður Fortnite fyrir Valorant

Fortnite-fiskur klórar sér í hausnum.
Fortnite-fiskur klórar sér í hausnum. Grafík/Epic Games

Vinsæli Fortnite-streymandinn Benjyfishy hefur tilkynnt um að hann sé búinn að gefast upp á keppnisbundnu spili í Fortnite. Nú mun hann einbeita sér að því að spila og streyma frá Valorant í staðinn.

Benjy Fish, betur þekktur sem Benjyfishy er átján ára streymandi og atvinnumaður í rafíþróttum. Hann hefur nú tilkynnnt um að hann sé að hætta í keppnisbundnu spili í tölvuleiknum Fortnite og muni snúa sér að Valorant frá Riot Games.

Spilaði á heimsmeistaramótinu

Fish hefur allan sinn feril verið að spila í Fortnite og var jafnframt einn af bestu leikmönnunum á heimsmeistaramótinu í Fortnite.

Í myndbandi segir Fish að hann hafi misst áhugann á Fortnite í þriðja kaflanum í öðru tímabili leiksins og telur tilgangslaust að halda einhverju áfram sem veitir honum ekki ánægju.

Valorant skemmtilegastur

Hann tekur þó fram að hann sé mjög þakklátur fyrir þau ár sem hann hefur spilað í Fortnite og segist ekki vilja skipta þeim út fyrir eitthvað annað.

Hvers vegna hann kjósi Valorant í staðinn segir hann leikinn veita honum mestu skemmtunina sem hann hefur fengið að njóta við tölvuleikjaspilun síðan á heimsmeistaramótinu í Fortnite. 

Þó hann gæti streymt eitthvað frá Fortnite í framtíðinni, mun keppnisbundna spilið hans alfarið snúa að Valorant.

Þakklátur henni að eilífu

Fish þakkar fjölda fólks og þá sérstaklega móður sinni sem hefur stutt hann í gegnum þetta allt saman.

„Án hennar hefði ég aldrei getað byrjað á þessu ferðalagi þar sem hún leyfði mér að ganga á eftir draumnum mínum, sem ég verð að eilífu þakklátur fyrir,“ segir Fish um mömmu sína.

Þetta er svo sannarlega góður tími til þess að byrja í tölvuleiknum Valorant þar sem fimmti þátturinn er að hefjast og nýja kortið, Perlan, er á leiðinni.

mbl.is