Spilað í einstökum Disney- og Pixar-heim

Staðfest hefur verið að væntanlegi tölvuleikurinn Disney Dreamlight Valley mun koma út í forútgáfu í haust, en þar spila leikmenn við hlið uppáhalds Disney- og Pixar-persóna sinna.

Á Nintendo Direct-sýningunni sem fór fram í gær var staðfest með stiklu hvenær Dreamlight Valley kæmi út í forútgáfu og veitti stiklan jafnframt dýpri innsýn í leikinn.

Leikurinn verður gjaldfrjáls til spilunar og aðgengilegur í forútgáfu á Steam og Nintendo Switch þann 6. september.

Spilað við hlið Guffa og Úrsúlu

Dreamlight Valley er einskonar Disney- og Pixar-útgáfa af Stardew Valley og Animal Crossing sem verður hægt að spila á öllum helstu leikjatölvum. 

Í leiknum eru leikmenn eru staðsettir í heim þar sem fjölmörg þekkt Disney- og Pixar-andlit eru í fararbroddi. Má þar nefna persónur á borð við Úrsúlu, Bósa Ljósár, Mikka Mús, Andrés Önd, Guffa og fleiri.

Leikmenn takast á við fjölbreytt verkefni innanleikjar í tengslum við persónur frá Disney og Pixar og eiga þar að auki að byggja upp samband við þær.

Rottan Remy úr Ratatouille mun til dæmis kenna leikmönnum að elda og Ólafur úr Frozen þarfnast aðstoðar við laxveiði.

Nánar um leikinn má finna á opinberu heimasíðu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert