Fyrsta Vinnuskólamótið í rafíþróttum

Tölvuleikjaspilarar í Arena.
Tölvuleikjaspilarar í Arena. mbl.is/Árni Sæberg

Rafíþróttasamtök Íslands í samstarfi með Vinnuskólanum í Kópavogi héldu fyrsta Vinnuskólamótið í rafíþróttum í síðustu viku.

Mótið var skipulagt af tveimur nemendum Vinnuskólans, Tómasi Breka Steindórssyni og Alexander Má Bjarnþórssyni, og fór fram í rafíþróttahöllinni Arena síðastliðinn fimmtudag.

Keppt var í tölvuleiknum Rocket League, en það er einn af vinsælustu keppnisleikjunum í dag.

Fengu góða innsýn í bransann

„Það er búið að vera frábært að vinna með Vinnuskóla Kópavogs í sumar. Við fengum til liðs við okkur þá Alexander Má og Tómas Breka sem hafa lært fjölmargt um rafíþróttir og hvernig er hægt að nýta þetta umhverfi sem við erum í fyrir félagslega eflandi viðburði,“ segir Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands, í samtali við mbl.is.

„Þeir eru mjög skapandi og eru núna að vinna í að búa til Discord-svæði fyrir Vinnuskólann þar sem hægt er að efla enn frekari tengsl nemanda.“

Þá bætir Aron við að strákarnir hafi einnig verið að taka upp myndbönd í kringum þetta allt saman og læri að klippa þau til. Myndböndin eiga eftir að koma út og hlakkar hann til að sjá útkomuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert