Hélt að þau vildu ekki neinn frá Íslandi

Íslenska fánanum flaggað á Dreamhack með fánum annarra Norðurlanda.
Íslenska fánanum flaggað á Dreamhack með fánum annarra Norðurlanda. Ljósmynd/Aðsend

Akureyringurinn Guðmundur Orri Baldursson fór nýlega til Svíþjóðar þar sem hann var að vinna á einum stærsta lan-viðburði í heimi, Dreamhack.

Guðmundur starfar hjá ELKO og fór til Svíþjóðar á Dreamhack ásamt hópi starfsfólks frá Elgiganten og Elkjöp, en Elgiganten er aðalstyrktaraðilinn fyrir Dreamhack.

Elgiganten leitaði að fólki til þess að vinna á Dreamhack og ákvað Guðmundur að sækja um, grunlaus um að hann myndi detta í lukkupottinn.

„Ég sótti um, haldandi samt að þeir myndu ekki hafa neinn áhuga að fá einhvern frá Íslandi, en viti menn! Þeir voru svo ánægðir að fá einstakling frá Íslandi að þeir völdu mig til þess að koma út,“ segir Guðmundur.

Frá Dreamhack í Svíþjóð 2022.
Frá Dreamhack í Svíþjóð 2022. Ljósmynd/Aðsend

Átti að láta fólki líða vel

Fyrirtækið setti upp stóra verslun á mótinu með sérstökum Dreamhack-tilboðum, sem að sögn Guðmundar „láta Black Friday-útsöluna líta út eins og venjulega helgi“.

„Skilaboðin sem við fengum voru sú að við værum ekki með aðaláhersluna á að selja og græða, heldur ættum við að leggja púður í það að láta fólki líða vel.

Þeir sem þekkja mig vita hversu þjónustulundaður ég er, og ég var mest í því að hjálpa fólki að finna hluti sem þau voru að leita að, spjalla við gesti og halda uppi góðri stemningu.“

Allur salurinn óskaði honum til hamingju

Guðmundur fékk mikla athygli úti og trúði fólk honum ekki þegar hann sagðist vera frá Íslandi. Mikið var grínast með það og í kjölfarið hlaut hann viðurnefnið „Island Boy“, sem loddi við hann alla sjö dagana sem hann varði í Svíþjóð.

„Ég átti afmæli á meðan ég var úti, þann 19. júní, og þá fannst öllum rosalega fyndið að segja við fólk að ef það myndi finna „Island Boy“ þá ættu þau að óska honum til hamingju með daginn og syngja fyrir mig, og þau sem gerðu það fengu pókerpening að launum,“ segir Guðmundur en fyrir pókerpeninga var hægt að snúa lukkuhjóli sem veitti ýmis verðlaun.

„Það endaði heill salur á því að öskra „happy birthday Island Boy“. Þetta var geggjað, og svo sannarlega besta afmælið sem ég hef upplifað!“

Guðmundur Orri með tvær eftirhermur upp á arminn.
Guðmundur Orri með tvær eftirhermur upp á arminn. Ljósmynd/Aðsend

Margar myndir teknar

Það gefur augaleið að Guðmundur hafi fengið að kynnast fjölda fólks, en hann var einnig kynntur fyrir mörgum sænskum streymendum og atvinnumönnum í rafíþróttum. Má þá nefna aðila á borð við kandyland, get_right og fleiri.

Guðmundur fékk myndir af sér með þeim en svo voru aðrir sem vildu líka fá myndir af sér með honum, hinum eina sanna „Island Boy“. 

Jafngott og heima á Akureyri

„Andrúmsloftið þarna var æðislegt, sirka jafngott og er heima á Akureyri. Það voru allir vinir – enda allir sem koma þarna sannir nördar, en það sem stóð mest upp úr er hvað Svíþjóð er æðislegt land, maturinn, fólkið, veðrið og Dreamhack-mótið sjálft.

Mér leið eins og ég væri í fríi þó ég hafi skilað inn 100+ vinnutímum yfir eina viku. Svo vildi ég reppa ELKO og Ísland eins vel og ég gat, og ég held að það hafi heppnast mjög vel! Ég fer vonandi aftur á Dreamhack Winter í nóvember.“

mbl.is