Blizzard skiptir um skoðun með Classic

World of Warcraft Classic: Wrath of the Lich King.
World of Warcraft Classic: Wrath of the Lich King. Grafík/Activision Blizzard

Þrátt fyrir að Blizzard hafi upprunalega sagt að rakning verkefna (e. quest tracking) yrði ekki í World of Warcraft Classic: Wrath of the Lich King, verður eiginleikanum bætt við „á einhverjum tímapunkti“.

Þegar Blizzard tilkynnti fyrst um Wrath of the Lich King í Classic sagði fyrirtækið að ákveðnir eiginleikar, eins og rakning verkefna eða sjálfvirk dýflissuleit, yrðu ekki hluti af upplifuninni.

Félagslegi þátturinn mikilvægur

Ástæðan fyrir því var sú að viðhalda upprunalegu upplifuninni við að hækka um reynsluþrep í Wrath of the Lich King ásamt félagslega þættinum við MMORPG-leiki.

Í stað þess að fá strax að vita hvert þeir þurfi að fara og hvað eigi að drepa, eins og í WoW nútímans, vildi Blizzard halda upplifuninni í WoW Classic frábrugðinni.

Þá verða leikmenn áfram knúnir til þess að tala við hvorn annan innanleikjar og stofna sjálfir til hópa fyrir dýflissuferðir eða önnur verkefni í Azeroth.

Eins og í upprunalega leiknum

Í nýlegri færslu frá Blizzard kemur þó fram að fyrirtækið horfi aðeins öðruvísi á hlutina í dag til samanburðar við fyrstu viðtölin um leikinn.

„Ég vildi bara stökkva inn og segja að við ætlum að bæta rakningu verkefna við í verkefnayfirlitið og á kortið á einhverjum tímapunkti, eins og í uppfærslu 3.3 í upprunalega Wrath of the Lich King,“ segir í færslu frá Blizzard.

Rakning verkefna er ekki til staðar í núverandi beta-útgáfu Wrath of the Lich King í Classic en Blizzard segir þann eiginleika auk nokkurra annarra vera enn í þróun.

Staðfestur útgáfudagur hefur ekki verið gefinn upp fyrir leikinn en hann mun koma út á þessu ári.

mbl.is