Spennandi leikir sem koma út í júlí

Tölvuleikir eru bæði spilaðir og gefnir út allt árið og eru margir spennandi leikir á leiðinni í júlí.

Hér að neðan er listi yfir hluta þeirra leikja sem koma út á næstu dögum og vikum.

MADiSON - 8. júlí 

MADiSON er fyrstu persónu sálfræðitryllir frá Bloodious Games sem færir leikmönnum djúpa og óhugnalega upplifun. 

„Með hjálp skyndimyndavélar, tengiru mennska heiminn með heiminum að handan, taktu myndir og framkallaðu þær sjálfur. Leystu ráðgátur, kannaðu umhverfið þitt og það sem mikilvægast er, lifðu af,“ segir um leikinn á Steam.

Time on Frog Island - 12. júlí

Time on Frog Island er hlutverkaleikur frá Half Past Yellow þar sem leikmenn eru staðsettir á paradísareyju með vinalegum froskum. Leikmenn fá að kanna eyjuna og takast á við allskonar verkefni.

„Njóttu sandkassa-eyjulífsins og kannaðu hana á þínum eigin hraða, leystu úr erfiðum aðstæðum fyrir nýju vini þína og stundaðu viðskipti til þess að laga skipið þitt,“ segir um leikinn á Steam.

Loopmancer - 14. júlí

Loopmancer er þrívíddar-, roguelite-, hasarleikur með frá eBrain Studio sem gerist í cyberpunk-alheim. Leikmenn eru settir í hlutverk rannsóknarlögreglu sem vaknar aftur til lífs eftir að hafa dáið og rannsakar hvarf frægs blaðamanns.

„Leikmenn spila sem rannsóknarlögregla sem vaknar aftur til lífs eftir að hafa dáið óvænt, og berjast um í þessarri líflegu og framúrstefnulegu borg fyrir austan,“ segir um leikinn á Steam.

Eyes in the Dark - 14. júlí 

Eyes in the Dark er roguelite-leikur frá Under The Stairs þar sem leikmenn spila sem Victoria Bloom og berjast við myrkrið með ljósinu sínu.

„Dragðu úr myrkrinu sem hefur tröllriðið Bloom Manor og yfirbugaðu sveim vera á meðan þú uppgötvar öfluga nýja hluti til þess að uppfæra vopnabúrið þitt,“ segir um leikinn á Steam.

Endling: Extinction is Forever - 19. júlí

Endling: Extinction Is Forever er hjartnæmur hlutverkaleikur frá Herobeat Studios þar sem leikmenn eru settir í hlutverk síðustu tæfunnar sem eftir er á Jörðinni og reynir að halda yrðlingunum sínum á lífi.

„Sem síðasta refamóðirin á Jörðinni, þurfa yrðlingarnir þínir á allri þinni umhyggju að halda til þess að lifa af í miskunnarlausum heim sem hægt og rólega eyðileggur sjálfan sig. Þú þarft að hjálpa þeim, kenna þeim og bjarga þeim. Og þú ættir aldrei að gleyma því að útrýming varir að eilífu,“ segir um leikinn á Steam.

As Dusk Falls - 19. júlí

As Dusk Falls er dramatískur ævintýraleikur frá Interior Night þar sem leikmenn kanna líf tveggja fjölskyldna sem hafa flækst saman síðastliðin 30 ár í litlum bæ í Arizona.

„Það byrjaði árið 1998 með ráni sem fór úrskeiðis, líf persónanna ráðast af ákvörðununum sem þú tekur. Sérhver fjölskylda hefur leyndarmál, hvert leyndarmál hefur sitt verð,“ segir um leikinn á Steam.

Stray - 19. júlí

Stray er ævintýralegur hlutverkaleikur frá BlueTwelve Studio þar sem leikmenn eru í hlutverki kattar sem hefur verið yfirgefinn. Til þess að komast aftur heim þarf kötturinn að kafa ofan í forna leyndardóma og sleppa úr gleymdri tækniborg með aðstoð frá drónanum B-12.

„Skoðaðu heiminn í gegnum augu kattar og bregstu við umhverfinu á fjörugan hátt. Vertu laumulegur, fimur, kjánalegur og stundum eins pirrandi og þú getur mögulega verið við skrítnu íbúa þessa undarlega heims,“ segir um leikinn á Steam.

Forza Horizon 5 Hot Wheels - 19. júlí

Hot Wheels er aukapakki í kappakstursleiknum Forza Horizon 5 frá Playground Games. Með honum geta leikmenn sett saman sínar eigin keppnisbrautir með fleiri en 80 brautarbitum og jafnframt keppt á tíu nýjum bílum.

„Hannaðu, smíðaðu og deildu þínum eigin Hot Wheels-ævintýrum með fleiri en 80 aðskildum og samsetjanlegum brautarbitum. Kepptu á tíu glæsilegum nýjum bílum á borð við 2021 árgerðina af hinum leifturhraða Hennessey Venom F5 og þann þekkta Hot Wheels Deora II frá árinu 2000,“ segir um leikinn á Steam.

Bear and Breakfast - 28. júlí

Bear and Breakfast er afslappandi ævintýraleikur frá Gummy Cat þar sem leikmenn eru í hlutverki skógarbjörnsins Hank sem rekur gistiheimili með morgunmat í skóginum. 

„Eftir því sem starfsemin eykst þá koma fleiri leyndardómar skógarins í ljós, og Hank stendur sig fljótlega að því að fletta ofan af ráðabruggi sem teygir anga sína víða,“ segir um leikinn á Steam.

mbl.is