Umtalsverðra breytinga má vænta í nýjum GTA-leik

Tölvuleikurinn Grand Theft Auto: V er einn af mest seldu …
Tölvuleikurinn Grand Theft Auto: V er einn af mest seldu tölvuleikjum allra tíma. Grafík/Rockstar North/GTA V

Mikil stakkaskipti virðast hafa orðið hjá tölvuleikjaframleiðandanum Rockstar en tölvuleikurinn Grand Theft Auto: VI (GTA VI) mun meðal annars skarta konu í aðalhlutverki í fyrsta sinn. Bloomberg-fréttaveitan fjallar um málið.

Eins og í forvera tölvuleiksins þá geta tölvuleikjaspilarar valið á milli aðalpersóna til að spila, en í þetta skiptið verða þær tvær. Um par er að ræða og er söguþráður leiksins innblásinn af bankaræningjunum Bonnie og Clyde.  

Fyrri leikir sætt gagnrýni

Fyrri Grand Theft Auto-leikir Rockstar hafa sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár vegna þeirrar kvenfyrirlitningar sem mörgum finnst fyrirfinnast í leikjunum.

Þá hafa leikirnir einnig verið gagnrýndir fyrir að vera ofbeldisfullir, en í þeim er meðal annars hægt að beita saklausa vegfarendur ofbeldi, ræna bílum, kaupa vændi og valda ýmiss konar usla. Einnig hafa leikirnir þótt gera stólpagrín að jaðarsettum hópum samfélagsins.

Einn af mest seldu tölvuleikjunum

Það verður því áhugavert að sjá hvernig lokaútgáfa GTA VI mun líta út, en búist er við því að hann komi út á árunum 2023-2024.

GTA V er aftur á móti einn af mest seldu tölvuleikjum allra tíma, en á þeim lista trónir Minecraft á toppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert