Tölvuleikir orðnir að fjölskylduáhugamáli

Ingvar Ólafsson ásamt börnunum sínum Brynjari Loga og Ágústu Huld.
Ingvar Ólafsson ásamt börnunum sínum Brynjari Loga og Ágústu Huld. Ljósmynd/Aðsend

Í mörgum tilfellum hafa tölvuleikir og spilun þeirra orðið undirstaða dýrmætra minninga, þar sem fólk nýtur gæðastunda og spilar með öðrum.

Ingvar Ólafsson, einnig þekktur sem „DadBadOne“, hefur um nokkurn tíma búið til tölvuleikjamyndbönd og hlaðið þeim upp á YouTube-rásina sína, DadBadOne.

Hann er þó ekki eini tölvuleikjaspilarinn á heimilinu. Fjölskyldan spilar gjarnan saman tölvuleiki og nýtur með því samvista og gæðastunda á nútímalegan hátt.

Nýlega hlóð hann t.d. upp myndbandi sem þar sem hann og tíu ára gamall sonur hans, Brynjar Logi eða „LogiCubez“, sáust vinna leik í Fortnite. Þeir feðgar spila einnig með átta ára gamalli dóttur Ingvars, Ágústu Huld.

Hér að neðan má horfa á umrætt myndband af þeim feðgum vinna leik í Fortnite.

Spila mjög vel saman

Í samtali við mbl.is segir Ingvar að þeir feðgar hafi lengi spilað saman og að „eitthvað hafi bara smollið upp á síðkastið“. Undanfarið hafa þeir unnið hvern leikinn í Fortnite á fætur öðrum.

„Ég get alveg sagt að ég á mína bestu leiki með syni mínum í Fortnite, við spilum mjög vel saman,“ segir Ingvar.

„Mér finnst mikilvægt að veita hans áhugamáli athygli, og taka þátt í því.“

Stolt eftir leik með pabba

Hann telur spilunina án efa styrkja tengslin þeirra á milli og Ágústu Huldar þar sem hún spilar líka með þeim við og við eða hjálpar honum við spilunina.

„Stundum situr hún hjá mér og reynir að benda mér á aðra spilara og kistur og svona í Fortnite,“ segir Ingvar og heldur áfram.

„Við áttum leik um helgina þar sem hún benti á spilara sem var kominn nálægt því að taka mig út og ég sá hann ekki. Þá sneri ég mér að honum og tók hann niður og við unnum leikinn. Hún var svo stolt, af því að það var vegna þess að hún fann spilarann og ég sá hann ekki!“

Fjölbreyttir leikir spilaðir

Fjölskyldan spilar ýmsa leiki saman og má þar nefna leiki á borð við Fall Guys, Rocket League, It Takes Two og fleiri, en svo spila systkinin einnig tvö saman.

Þá spila þau til dæmis Roblox, Minecraft eða RecRoom, en þau eiga PsVR sem systkynin mega nota í um tuttugu mínútur að hámarki í senn og geta þau þá spilað RecRoom, sem er eins konar leikur með fleiri smáleikjum.

Til bóta á marga vegu

„Það hjálpar klárlega með fínhreyfingar og eins viðbrögð og að taka eftir snöggum hreyfingum. Það gerist ekkert allt strax en þetta þjálfar þá eiginleika,“ segir Ingvar.

Hann sér börnin einnig taka framförum í samskiptahæfni þar sem þau læra að vinna saman í hinum og þessum leikjum og hjálpast þá mikið að.

„Strákurinn er duglegur að kenna systur sinni hvernig leikirnir virka og þau spila vel saman, og ná vel saman um leið.“

„Oft er mikill spenningur í þeim þegar ég leyfi þeim að fá tölvutíma og þau hoppa beint í Minecraft, þar sem þau ætla að halda áfram að smíða land sem þau eru búin að vinna í saman til dæmis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert