Íslenska Valorant-senan fer stækkandi

Spilað í íslenskum Valorant-deildum á vegum Rafíþróttasamtaka Íslands.
Spilað í íslenskum Valorant-deildum á vegum Rafíþróttasamtaka Íslands. Grafík/Rafíþróttasamtök Íslands

Tölvuleikurinn Valorant heldur áfram að ryðja sér til rúms í rafíþróttum um heim allan. Fyrsta íslenska Valorant-deildin var sett á laggirnar fyrr á þessu ári og er nú annað tímabil deildarinnar hafið.

Annað tímabil í íslensku Valorant-deildinni er hafið og hefur leikmönnum fjölgað talsvert frá síðasta tímabili.

Keppendum fer fjölgandi

Skráðir keppendur eru 173 og skipa með því 24 lið, til samanburðar voru skráðir keppendur um 130 á síðasta tímabili.

Er því ljóst að Valorant-senan sé að stækka á meðal íslenskra leikmanna líkt og erlendis.

„Þessi vöxtur er að sjálfsögðu frábær og sýnir hvað senan er að verða sterk, en það er samt samfélagið sjálft sem gerir þetta að möguleika og þau eiga allt hrós fyrir það hversu hratt senan er að stækka,“ segir mótastjórn RÍSÍ í Valorant í samtali við mbl.is.

Keppt í tveimur flokkum

Valorant-deildin skiptist niður í tvo flokka, þá opinn flokk og kvennaflokk. Í opnum flokki eru fimm deildir ásamt úrvalsdeild en í kvennaflokki er eingöngu úrvalsdeild.

Í úrvalsdeild kvenna munu liðin Krafla, GORLS, BroFlakez og Pink Express keppa en í úrvalsdeild í opnum flokki eru liðin Dusty, Dímon, Charge og Ex Icelandic Champs.

Spilað í beinni útsendingu

Streymt verður frá viðureignum úrvalsdeilda á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands og fer fyrsta útsending í loftið á sunnudaginn 21. ágúst klukkan 19:00.

Útsendingar af viðureignum úrvalsdeilda verða einnig sunnudagana 28. ágúst og 4. ágúst og á klukkan 18:00 á laugardeginum þann 10. september en þá er úrslitaviðureignin spiluð.

Streymt verður frá einhverjum viðureignum úr neðri deildunum á Twitch-rás íslensku Valorant-senunnar svo áhugasamir geta einnig fylgst með sínum uppáhalds liðum þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert