Hver er bestur í Mario Kart á Íslandi?

Í lok þessa mánaðar verður skorið úr um það hver sé besti Mario Kart-spilarinn á landinu þegar fyrsta Íslandsmeistaramótið í þeim leik verður haldið.

Adam Leslie Scanlon heldur mótið laugardaginn 27. ágúst í rafíþróttahöllinni Arena.

Fjölbreytt afþreying verður í boði ásamt nokkrum mismunandi keppnisgreinum. Mótið er haldið til styrktar velferðarsjóðnum Vináttu í verki og rennur því hluti ágóðans í þann sjóð.

Adam Leslie Scanlon stendur fyrir mótinu.
Adam Leslie Scanlon stendur fyrir mótinu.

Spila Mario Kart í búningum

Um tvenns konar Mario Kart-keppnir er að ræða. Annars vegar er um að ræða keppni fyrir Mario Kart-leikmenn sem eru „í æfingu“. Hins vegar er keppni fyrir þá leikmenn sem eru að dusta rykið af fjarstýringunni eftir langt hlé eða jafnvel nýliða.

Þar að auki fer sérstök eftirhermukeppni fram á sama tíma og verður hún í Mario-þema. Þá klæða eftirhermur sig upp sem persónu eða einhvern annan hlut sem finnst í Mario Kart-heiminum.

Til dæmis væri hægt að klæða sig upp sem Bowser, Donkey Kong eða jafnvel sem sveppur eða bananahýði.

Verðlaun og Bingó í litríkum fötum

Fjöldi verðlauna eru í boði, á borð við bikara, gjafabréf og fleira en greint verður frá verðlaunum þegar nær dregur. Sérstakt góðgerðarbingó verður einnig spilað. Þar geta keppendur unnið til verðlauna á sama tíma og þeir styrkja góð málefni.

Hverjum miða á viðburðinn fylgir armband, drykkur og hlaðborð af pizzum á veitingastaðnum Bytes sem er staðsettur innan Arena.

Keppendur og aðrir gestir sem ekki taka þátt í eftirhermukeppninni eru hvattir til þess að mæta í þægilegum og litríkum fatnaði.

Sérstakt svæði verður tekið frá fyrir þá sem ekki keppa í Mario Kart eða fyrir þá sem hafa dottið úr keppninni. Þar verða nokkrar Nintendo Switch-tölvur svo fólk getur prófað ýmsa leiki eða spjallað og kynnst hvort öðru.

Viðburðurinn ætti því að höfða bæði til keppenda sem og þeirra sem vilja koma og skemmta sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert