Breiðablik keppir á hæsta stigi í vetur

Davíð Jóhannsson, formaður rafíþróttadeildar Breiðabliks og Magnús Árni Magnússon, fyrirliði …
Davíð Jóhannsson, formaður rafíþróttadeildar Breiðabliks og Magnús Árni Magnússon, fyrirliði Breiðabliks í CS:GO, handsalar samninginn. Fyrir aftan þá er stjórn og hluti af leikmönnum Breiðabliks í CS:GO. Ljósmynd/Breiðablik

Rafíþróttadeild Breiðabliks hefur fengið til liðs við sig reynslumikla leikmenn í Counter-Strike: Global Offensive sem munu keppa í Ljósleiðaradeildinni í næsta mánuði.

Með því hefur Breiðablik myndað fyrsta rafíþróttalið sitt sem keppir á hæsta stigi í CS:GO á Íslandi.

Vill keppa í hæsta gæðaflokki

„Breiðablik er metnaðarfullur klúbbur og vill keppa í hæsta gæðaflokki þar sem það er í boði,“ segir Davíð Jóhannsson, formaður rafíþróttadeildar Breiðabliks.

„Við vildum frá upphafi taka þátt í íslensku rafíþróttasenunni og erum gríðarlega ánægð að fá eins reynslumikla leikmenn og þessa til að spila undir merkjum Breiðabliks og vera fyrirmyndir fyrir okkar iðkendur.“

Leikmenn liðsins þekkja hvorn annan vel en þeir spiluðu saman í fyrstu deildinni á síðasta ári og unnu deildina.

Spila við þá bestu

Breiðablik byrjaði með rafíþróttastarf fyrir ári síðan og hefur eftirspurnin í Kópavogi verið mikil.

„Það varð algjör sprengja í sumar þar sem 500 krakkar skráðu sig á námskeið hjá félaginu.“

„Spennandi tímar eru framundan hjá Breiðablik og það verður spennandi að fylgjast með þeim spila við þá bestu í Ljósleiðaradeildinni.“

Frekari upplýsingar um rafíþróttadeild Breiðabliks er hægt að nálgast á Facebook og heimasíðu deildarinnar.

mbl.is