Adam leitar að Evu í Kópavogi um helgina

Adam skipuleggur fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart.
Adam skipuleggur fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart. Ljósmynd/Norris Niman

„Eini náttúrulegi hæfileikinn minn er að vera góður í tölvuleikjum,“ segir Adam Leslie Scanlon í samtali við mbl.is en hann heldur fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart um helgina.

Vinur Adams kynnti hann fyrir Mario Kart fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan og byrjaði hann þá að spila leikinn af kappi. Nú vill Adam færa þetta upp á næsta stig með því að halda fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart.

Mótið fer fram á laugardaginn í rafíþróttahöllinni Arena og verður staðurinn skreyttur í anda Mario-heimsins. Auk Mario Kart-keppninnar fer fram búningakeppni og bingó og verða tilboð á barnum, pítsuhlaðborð og fleira.

Miðasala fer fram á Tix.is ásamt ítarlegri upplýsingum um viðburðinn.

Adam leitar að Evu

Adam vonast eftir því að kynnast og spila á móti góðum Mario Kart-leikmönnum, og þá sérstaklega einhverjum sem getur unnið hann í leiknum.

„Ég vona það, margir vina minna sem munu koma á viðburðinn en keppa ekki vilja sjá einhvern rústa mér. Kannski verður það Eva, einhver sem heitir Eva,“ segir Adam.

„Þá gætum við verið Adam og Eva, þá myndi ég myndi giftast henni og við myndum skipuleggja Mario Kart-mót saman um allan heim.“

Tvennskonar Mario Kart-keppnir

Þó að Adam vilji mæta ofjarli sínum á mótinu þá vill hann að sjálfsögðu líka vinna. Hefur hann því verið að undirbúa sig undanfarið og æft sig mikið í leiknum.

Mótið er ekki aðeins ætlað þeim sem eru nú þegar í æfingu í leiknum, heldur fara tvenns konar Mario Kart-keppnir fram.

Annarsvegar keppni fyrir leikmenn sem eru á tánum og spila leikinn reglulega. Hinsvegar fyrir ýmist eldri leikmenn sem eru að dusta rykið af fjarstýringunni eftir nokkurn tíma eða þá byrjendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert