Taplaus í gegnum Íslandsmeistaramótið

Natasja Dagbjartardóttir vann fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart og fór …
Natasja Dagbjartardóttir vann fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart og fór heim með gullnu skelina ásamt splunkunýrri Nintendo Switch Oled. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsti Íslandsmeistarinn í Mario Kart var krýndur í Arena á laugardagskvöldið eftir einstaklega góða frammistöðu. 

Natasja Dagbjartardóttir kom, sá og sigraði á Íslandsmeistaramótinu í Mario Kart um helgina og fór heim með glænýja Nintendo Switch Oled ásamt gullnu skelinni og nýjum titil.

„Ég afsannaði líka það að spilarar yfir fertugt séu lélegir,“ segir Natasja um sigurinn í samtali við mbl.is.

Hér er Adam Leslie Scanlon að afhenda Natösju Dagbjartardóttir verðlaunin …
Hér er Adam Leslie Scanlon að afhenda Natösju Dagbjartardóttir verðlaunin fyrir að hampa fyrsta sætinu á Íslandsmeistaramótinu í Mario Kart. Ljósmynd/Aðsend

Taplaus á mótinu

Vert er að nefna að hún fór alveg taplaus í gegnum mótið, en hún vann alla sína riðla og tapaði ekki einni umferð.

Af 48 spiluðum brautum lenti hún í fyrsta sæti í 46 brautum en öðru sæti í þeim tveimur sem hún var ekki fyrst.

Keppt á heimsmeistaramótum

Natasja er þó alls enginn nýgræðlingur í Mario Kart-keppnissenunni en hún hefur meðal annars spilað fyrir hönd Skandinavíu á heimsmeistaramóti í leiknum í tvígang.

Þar af hefur hún spilað leikinn frá því að hann kom út árið 1992 en tölvuleiki almennt hefur hún spilað frá árinu 1986.

Læra af þeim bestu

Natasja segir lykilatriðið í að verða góður í Mario Kart sé að fylgjast með þeim bestu og læra af þeim.

„Horfa á mót á netinu, horfa á lið frá Japan þar sem þeir eru með sigursælustu lið frá upphafi í Mario Kart,“ segir Natasja um lykilatriðin við að ná árangri í senunni.

„Ég lærði mest af því að horfa á heimsmethafa spila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert