Vallea og LAVA Esports hefja samstarf

LAVA Esports.
LAVA Esports. Grafík/LAVA Esports

Ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar í leiknum Rocket League, LAVA Esports, hefur gert samning við Vallea að keppa undir merkjum LAVA á komandi tímabili í Ljósleiðaradeildinni.

LAVA Esports, sem hefur sýnt ótrúlegan árangur í Rocket League, tekur nú höndum saman við eitt öflugasta Counter-Strike lið landsins til að sækja hærra í íslensku rafíþróttasenunni.

Liðsmenn Vallea komust í Stórmeistaramótið á síðasta tímabili en ljóst er að um gríðarlega öflugt lið með mikla reynslu er um að ræða.

Reynsluboltar taka saman höndum

Samsettur er þetta einn reynslumesti hópur landsins sem hefur unnið til fjölda verðlauna í CS:GO, leikmenn sem hafa spilað í stjörnuprýddum liðum eins og Seven og WarMonkeys.

Það er því ljóst að samkeppnin í Ljósleiðaradeildinni er að harðna enn frekar og stefnir í hörkuspennandi tímabil.

„Við erum með það markmið að vera fyrirmyndir og stuðningsaðilar íslensku rafíþróttasenunnar,“ segir Gunnar Þór Sigurjónsson, einn eiganda LAVA.

„Þetta er stórt skref í þá átt fyrir okkur að fá tækifæri til að hjálpa fleiri hæfileikaríkum einstaklingum að sýna hvað í þeim býr. LAVA eru gríðarlega stoltir að fá Vallea í hópinn og við hlökkum til að stíga á stærsta svið íslenskra rafíþrótta með þeim í vetur.“

Leikmenn LAVA esports verða eftirfarandi:

Sigurður „iNstaNt“ Þórhallsson

Birgir „sPiKe“” Ágústsson

Arnar Freyr „Stalz“ Þorgeirsson

Styrmir „goa7er“ Tómasson

Gísli Geir „TripleG“ Gíslason

Gauti „FuNky“ Þorvaldsson

Stefna hátt og vilja vera sýnilegir

„Við vildum vinna með orgi sem setur leikmennina og leikinn í fyrsta sæti. Við stefnum hátt og viljum vera sýnilegir, LAVA er í aðstöðu til að hjálpa okkur að ná lengra í þeim efnum,“ segir Gísli Geir Gíslason, liðsstjóri Vallea.

„Senan hér heima er að vaxa á ógnarhraða samhliða hröðum vexti um allan heim. Það er verið að móta framtíðina í rafíþróttum á hverjum degi og það er ótrúlega gaman að vera hluti af því ferli.“

Værir þú til í að spila tölvuleik á íslensku?

  • Já klárlega
  • Nei helst ekki
  • Hef ekki sterka skoðun á því
mbl.is