Keanu Reeves í lykilhlutverki fyrir Atgeira

Leikmenn Atgeira f.v. Steinn Kári Pétursson, Kristján Logi Guðmundsson, Magnús …
Leikmenn Atgeira f.v. Steinn Kári Pétursson, Kristján Logi Guðmundsson, Magnús Hinrik Bragason, Aron Páll Símonarson, Rúnar Óli Eiríksson. Í miðjunni er Fannar Logi Bragason, þjálfari Atgeira. mbl.is/Óttar Geirsson

Íslenska liðið Atgeirar hefur verið býsna farsælt undanfarið og þar að auki unnið þrjú lanmót í röð með glæsibrag. Síðast unnu þeir  helgarmót í Overwatch sem fór fram fyrr í mánuðinum. Liðið heldur næst á Helgarmótið í Overwatch þegar það spilar í úrvalsdeildinni dagana 17. og 18. september.

Hugarfarið eftir myndinni

Í samtali við mbl.is segir Fannar Logi Bragason, þjálfari Atgeira, að Hollywood-leikarinn Keanu Reeves hafi spilað lykilhlutverk fyrir síðasta helgarmót í Overwatch, þá fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Speed.

„Fyrir helgarmótið í Almenna horfðum við saman á Speed með Keanu Reeves einu sinni í viku á Discord,“ segir Fannar Logi Bragason „TheChosenOne“, þjálfari Atgeira, í samtali við mbl.is.

„Við gerðum þetta og við unnum mótið.“

Aðspurður segir hann myndina fjalla um rútu sem má ekki stoppa, því ef hún stoppar eða hægir á sér þá springur hún.

„Þannig háttum við okkur yfirleitt í keppnunum.“

Velta næstu mynd fyrir sér

Atgeirar kváðust þó ekki hafa verið að æfa mikið undanfarið en séu nú að fara að koma boltanum af stað þar sem Almenni er að hefjast á ný.

Fannar og leikmenn Atgeira munu líklega velja aðra kvikmynd til þess að horfa næst á þar sem þeir horfðu á myndina um það bil sjö sinnum á síðasta tímabili.

„Ég er búinn að vera að pæla í því hvaða mynd við ættum að horfa á, en það er bara engin eins góð og Speed með Keanu Reeves.“

Leikmenn Atgeira bentu þó á framhaldsmynd Speed, þá Speed 2: Cruise Control en hún fjallar um bát sem má ekki stoppa.

Leikmenn Atgeira f.v. Steinn Kári Pétursson, Kristján Logi Guðmundsson, Magnús …
Leikmenn Atgeira f.v. Steinn Kári Pétursson, Kristján Logi Guðmundsson, Magnús Hinrik Bragason, Aron Páll Símonarson, Rúnar Óli Eiríksson. Í miðjunni er Fannar Logi Bragason, þjálfari Atgeira. mbl.is/Óttar Geirsson

Spenntir fyrir nýju keppnisliði

Liðið er nokkuð öruggt með sig fyrir komandi tímabil og helgarmót í Overwatch og hlakkar til að mæta keppnisliðinu NÚ á ný.

NÚ spilaði á sínu fyrsta lanmóti síðustu helgi og bjuggust Atgeirar við að sjá liðið í úrslitum þar sem keppnislið NÚ í Overwatch samanstendur m.a. af reynslumiklum og góðum leikmönnum.

Kom það Atgeirum því mjög á óvart þegar þeir mættu Hauki Bauki í úrslitum í stað NÚ.

„Við erum bara með treyjur og horfum á Keanu Reeves - og við vinnum samt!“

Atgeirar sögðust þó reikna með því að NÚ komi sterkari inn í helgarmótið, en bæði lið spila í úrvalsdeild helgarmótsins, dagana 17. til 18. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert