Krafla deildarmeistari frá upphafi

Raxi, LiljaThor, MSA, askviz og Sunnyass, leikmenn Kröflu, gerast deildarmeistarar …
Raxi, LiljaThor, MSA, askviz og Sunnyass, leikmenn Kröflu, gerast deildarmeistarar í Valorant í annað sinn. Ljósmynd/Rafíþróttasamtök Íslands

Íslenska Valorant-liðið Krafla sannaði sig heldur en ekki síðastliðna helgi þegar það vann  kvennadeildina í annað sinn og varði með því titilinn sinn sem deildarmeistari

Öðru tímabili Valorant-deilda RÍSÍ lauk um helgina og er Krafla því ekki aðeins tvöfaldur deildarmeistari, heldur er einnig hægt að segja að Krafla hafi verið deildarmeistari frá upphafi.

Náðu báðum markmiðunum

„Við mættum á mótið til að verja titilinn og hafa gaman, og báðum markmiðum var náð,“ segir Emelía Ósk Grétarsdóttir „MSA“, leikmaður Kröflu, í samtali við mbl.is.

„Það var frábær tilfinning að vinna deildina. Við náum allar mjög vel saman og það er gaman hjá okkur þegar við erum að spila. Ég tel liðsheildina okkar gefa okkur mikinn styrkleika.“

Fyrir hönd Kröflu spila leikmennirnir Raxi, LiljaThor, MSA, askviz og Sunnyass en þær unnu sannfærandi sigur gegn BroFlakez í úrslitaviðureign kvennadeildarinnar.

Hér að neðan má sjá stiklu úr úrslitaviðureigninni sem sýnir frá LiljuThor að „eisa“, en hægt er að horfa á viðureignina í heild sinni á Twitch-rás RÍSÍ.

Deildin er ein sinnar tegundar á Íslandi

„Það er alltaf gaman að sjá lið bæði haldast saman, og verja titilinn sinn. Það er sérstaklega gaman að sjá í þessari nýju deild sem er ein sinnar tegundar hér á landi, en meirihluti liða í kvennadeildinni hélt sama fimm leikmanna kjarna,“ segir mótastjórn Valorant-deildar RÍSÍ í samtali við mbl.is.

„Við óskum KRÖFLU til hamingju með sigurinn en viljum jafnframt nota tækifærið til að þakka öllum fjórum liðum sem tóku þátt, deildin væri ekki möguleg án þeirra allra.“

mbl.is
Loka