Dota 2-leikmenn eiga kvöldið í Arena

Brewmaster í Dota 2.
Brewmaster í Dota 2. Grafík/Valve

Rafíþróttahöllin Arena heldur samfélagskvöld fyrir Dota 2-samfélagið á Íslandi en það hefst klukkan 18:00 í kvöld.

Er þetta kjörið tækifæri fyrir íslenska Dota 2-leikmenn til þess að kynnast öðrum leikmönnum, taka þátt í móti eða jafnvel bara spila við hlið annarra og nýta sér tilboðin sem verða í boði.

Spilað, keppt og unnið til verðlauna

Viðburðurinn stendur yfir frá klukkan 18:00 til klukkan 01:00 í nótt og hljóðar þátttökugjald upp á 3.990 krónur.

Þátttakendur fá aðgang að tölvum Arena frá klukkan 18:00 fram að lokun, tilboð verða á barnum og eins verður haldið lítið smámót þar sem keppendur geta unnið sér inn verðlaun.

Spilatími og pítsuveisla

Hver leikmaður sigurliðsins fær tíu klukkustunda inneign hjá Arena en sigurliðið fær einnig pítsuveislu á veitingastaðnum Bytes. Fyrir annað sætið fær hver leikmaður inneign upp á fimm klukkustundir í spilatíma en aðeins átta lið geta tekið þátt í mótinu sjálfu.

Nánar um þetta má lesa á heimasíðu Arena en skráning í mótið fer fram með sendingu tölvupósts á netfangið thorir@arenagaming.is. 

Athugið að í tölvupóstinum þarf að koma fram nafn keppnisliðsins ásamt liðsmönnum.

mbl.is