Ljósmyndakeppni fyrir tölvuleikjaspilara

RedBull og PlayStation hafa efnt til ljósmyndakeppni þar sem keppendur …
RedBull og PlayStation hafa efnt til ljósmyndakeppni þar sem keppendur senda myndir úr tölvuleikjunum Horizon Forbidden West eða Gran Turismo 7. Skjáskot/RedBull

PlayStation og Red Bull hafa tekið saman höndum og efnt til stafrænnar ljósmyndakeppni, Red Bull Capture Point, frá 5. september fram að 30. október.

Ljósmyndakeppnin stendur frá 5. september og fram að 30. október, en hún er frábrugðin mörgum öðrum ljósmyndakeppnum þar sem hún er stafræn og tengist tölvuleikjum. 

Ljósmyndir þurfa að vera teknar á PlayStation 4 eða 5 innan tölvuleikjanna Horizon Forbidden West eða Gran Turismo.

Vegleg verðlaun

Til mikils er að vinna og má þar nefna verðlaun á borð við PlayStation 5, fjarstýringar, heyrnatól eða þá ævintýraferð til New York.

Keppnin fer fram í fjórum hollum með fjórum mismunandi þemum, en fyrsta hollið hófst þann 5. september og verður hægt að senda inn ljósmyndir fram að 18. september, eða fram á sunnudag.

Nýtt upphaf og kall á vit ævintýra

Í fyrsta hollinu eru keppendur beðnir um að senda inn ljósmyndir í þema nýs upphafs en frá 19. september fram að 2. október eiga ljósmyndir að tengjast kalli á vit ævintýra.

Til þess að taka þátt þurfa keppendur þá að spila Horizon Forbidden West eða Gran Turismo 7 í PlayStation 4 eða 5 og smella myndum af heim tölvuleikjanna.

Síðan er myndunum hlaðið upp á samfélagsmiðilinn Twitter og merktar myllumerkinu #RedbullcapturepointUK.

Nánar um þetta má lesa í færslu frá Red Bull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert