Skráning í Ljósleiðaradeildina enn opin

Ljósleiðaradeildin.
Ljósleiðaradeildin. Grafík/Rafíþróttasamtök Íslands

Nú fer hver að verða seinastur til þess að skrá sig í Ljósleiðaradeildina, en lokað verður fyrir skráningu í neðri deildir í næstu viku.

Neðri deildir Ljósleiðaradeildarinnar eru ætlaðar öllum Counter-Strike: Global Offensive-spilurum óháð getustigi.

Hvetja Rafíþróttasamtök Íslands því bæði nýliða jafnt sem reynslubolta í leiknum til þess að skrá sig til leiks og spreyta sig í íslenska keppnisumhverfinu.

Greið leið á toppinn

Lið sem kepptu á síðasta tímabili geta haldið sæti sínu innan deildarinnar ef þau skrá sig og greiða þátttökugjaldið fyrir 21. september. Þátttökugjaldið hljóðar upp á 5.000 krónur en innifalið í því er meðal annars þátttökuréttur yfir allt tímabilið.

Að sama skapi eru neðri deildir Ljósleiðaradeildarinnar greið leið að Úrvalsdeildinni, en bæði Breiðablik og Ten5ion spila í Úrvalsdeildinni á þessu tímabili eftir að hafa unnið sig upp úr neðri deild.

Nánari upplýsingar um skráningu í Ljósleiðaradeildina má finna á heimasíðu Rafíþróttasamtaka Íslands en skráningarformið er að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert