Keppa í umspilsmóti fyrir Blast Series á morgun

Leikmenn Dusty í Counter-Strike: Global Offensive. StebbiC0C0, EddezeNNN, TH0R, Pallib0ndi, …
Leikmenn Dusty í Counter-Strike: Global Offensive. StebbiC0C0, EddezeNNN, TH0R, Pallib0ndi, detinate og kruzer. Ljósmynd/Dusty

Íslenska Counter-Strike: Global Offensive liðið Dusty vann sér inn þátttökurétt í umspilsmóti fyrir stórmótaröðina Blast Series fyrr á árinu með sigri á Stórmeistaramótinu.

Á morgun fer fyrsta viðureign Dusty í umspilsmóti fyrir hausttímabil Blast Series fram, þegar Dusty mætir danska liðinu Ecstatic.

Eiga fullt erindi í þessa leiki

Þetta er í annað sinn sem Dusty tekur þátt í umspilsmóti fyrir Blast Series, þá síðast í mars fyrir vorkeppnina.

Gullið tækifæri gekk þar úr greipum Dusty þar sem liðið komst ekki upp úr umspilsmótinu síðast en á morgun fær liðið annað tækifæri til að spreyta sig og sanna.

„Við mætum með kassann úti og teljum að við eigum fullt erindi í þessa leiki,“ segir Ásbjörn Daní­el Ásbjörns­son, stofn­andi og fram­kvæmda­stjóri Dusty, í samtali við mbl.is.

Rétti tíminn til að láta til sín taka

Vert er að nefna að Dusty spilaði á móti Ecstatic á umspilsmótinu í vor en tapaði með fjögurra stiga mun. Reynir því á Dusty að jafna metin og sýna hvað í þeim býr, en bæði liðin hafa gert talsverðar breytingar á liðunum frá því í vor.

„Eftir breytingarnar hjá okkur hefur gengið afar vel hjá liðinu og þessi blanda virðist passa vel saman,“ segir Ásbjörn.

„Nú eru líka yngri leikmennirnir okkar komnir með reynsluna af því að spila við þessi betri lið þannig tímasetningin er núna til þess að láta til sín taka á stóra sviðinu.“

mbl.is