Hápunkturinn er í gangi einmitt núna

Fannar Logi Bragason, þjálfari Atgeira í Overwatch.
Fannar Logi Bragason, þjálfari Atgeira í Overwatch. mbl.is/Óttar Geirsson

Fannar Logi Bragason, eða „TheChosenOne“ er 24 ára gamall Hafnfirðingur sem fær sér tómatsósu og steiktan lauk á pulsuna sína.

Þar að auki er Fannar að þjálfa eitt sterkasta Overwatch-lið íslensku senunnar, Atgeira.

Saman í rafíþróttum og fyrirtækjarekstri

„Ég eyði miklum tíma í skipulag og undirbúning liðsmanna minna í Atgeirum svo þeir hafi greiða leið að sem flestum sigrum í Overwatch,“ segir Fannar í samtali við mbl.is. Vert er að nefna að yngri bróðir Fannars, Magnús Hinrik Bragason „Avvii“, er á meðal leikmanna Atgeira.

„Þess á milli finnst mér gott að setjast niður og spila World of Warcraft.“

Samhliða þjálfun Atgeira heldur Fannar mörgum öðrum boltum á lofti. Hann starfar bæði sem bílasali og heldur úti fyrirtækinu Sósukóngarnir með bróður sínum, Magnúsi.

„Aðalathyglin er á deildinni og að taka hana og sigra,“ segir Fannar en bætir við að hann sé að vinna í stórum verkefnum sem ekki sé hægt að opinbera strax.

Byrjaði með sumarnámskeiði

Aðspurður segir hann auðvelt að halda öllum boltunum á lofti með skipulagningu, en að hann spái hins vegar ekkert í því og lifi bara í ringulreið.

„Ég spái ekkert í því og lifi í ringulreið, en ég næ að gera tvo hluti á sama tíma oftast og er frekar slakur bara.“

Rafíþróttaferill Fannars hófst í raun árið 2021 þegar hann hélt sumarnámskeið fyrir börn og unglinga hjá grunnskólanum NÚ.

Allt er komið á fullt skrið í rafíþróttadeild skólans og segir Fannar skólann hafa haldið út flottu prógrammi síðan þá.

Þróar óhefðbundnar leiðir 

„Núna er ég bara með eitt markmið og það er að stuðla að heilbrigðum og markvissum spilunarháttum hjá liðinu mínu og með því, að halda áfram að vinna fleiri titla og halda áfram starfi mínu sem öflugasti þjálfarinn á landinu.“

„Hápunkturinn er í gangi einmitt núna, liðið heldur áfram sigurgöngunni, ég held áfram að þróa óhefðbundnar leiðir og hugsunarhátt til þess að halda hlutunum áhugaverðum og skemmtilegum.“

Fannar hefur ýmsar leiðir til þess að koma liðinu sínu í gang, byggja upp liðsheild og góðan anda í liðinu.

„Það er ekkert endilega að sitja fyrir framan skjáinn allan daginn að „scrimma“, heldur fer ég reglulega með strákana út og legg fyrir þá andlegar og líkamlegar æfingar.“

Skilar sér inn á vígvöllinn

Fyrir síðasta helgarmót fór hann t.d. með strákana upp á Hvaleyrarvatn þar sem þeir tóku lotuspretti upp brekkuna sem síðan var fylgt eftir með léttum teygjum í sandinum.

„Ég sé verulegan mun á strákunum andlega eftir að við byrjuðum að gera þetta, og það skilar sér inn á vígvöllinn í Overwatch,“ segir Fannar en leikmenn hafa einnig bætt líkamlegt úthald sitt talsvert.

Má þar nefna að einn leikmaður liðsins skokkar nú 5 kílómetra á innan við einni klukkustund, en áður hafði það tekið viðkomandi eina og hálfa klukkustund. Annar leikmaður liðsins hefur bætt við tæplega 80 kílógrömmum við hnébeygjurnar sínar og tekur nú 140 kílógrömm í senn.

Spennandi að sjá hvert leiðin liggur

Fannar heillast sérlega að menningunni í kringum tölvuleiki og rafíþróttir þar sem hún hefur tekið stakkaskiptum síðastliðin ár. Hann hlakkar sérstaklega til þess að fylgjast með vexti rafíþrótta á Íslandi.

„Menningin í kringum þetta skarar svo svakalega fram úr og tekur stöðugum bætingum. Ég hlakka til að sjá rafíþróttir á Íslandi vaxa og dafna. Það verður spennandi að sjá hvert leiðin liggur,“ segir Fannar og bætir við að keppnisskapið sé alltaf til staðar eins og í öðrum íþróttum og að það sé sérstaklega gaman að styðja liðið sitt.

„Öll ungmennastörfin sem eru í boði eru með geggjaða umsjón frá flottum aðilum og eru þau flest samblanda af hreyfingu og spilun ásamt þróun heilbrigðs sambands við tölvuna, sem er mjög mikilvægt.“

Spilaði fyrst World of Warcraft

Sem fyrr segir þykir Fannari gott að kíkja í tölvuleikinn World of Warcraft og hefur hann gert það í fjölda ára, en það er fyrsti leikurinn sem hann spilaði.

„World of Warcraft er leikur sem ég hef spilað síðan ég var 6 ára þó það hafi ekki verið af miklu viti þá, en leikurinn heldur alltaf sérstökum stað í hjartanu.“

„Ég var heima hjá æskuvini mínum þar sem hann var að spila leikinn í tölvu bróður síns, og mér fannst þetta svo magnað og skemmtilegt.“

Einhverju síðar var Fannur staddur í Elko á Smáratorgi með afa sínum og greip til þess snjallræðis að plata hann til þess að kaupa leikinn fyrir sig. Þá vissi hann ekki að það þyrfti að áskrift til þess að spila leikinn.

Fannar dó ekki ráðalaus en honum tókst einhvern veginn að plata föður sinn til þess að borga fyrir áskrift að spilatíma í leiknum.

„Þá byrjaði hann að spila líka, og hefur gert það síðan með nokkrum pásum inn á milli, ásamt Magga bróður… Þetta er svona í fjölskyldunni núna,“ segir Fannar og hlær.

Fjöldi minninga frá WoW

„Þó ég hati allt við leikinn á köflum held ég alltaf áfram að spila. Það tengja örugglega allir sem spila tölvuleiki við þetta. Sérstaklega þeir sem spila League of Legends, en þeir hata að líkindum sjálfa sig líka.“

Tölvuleikurinn World of Warcraft varð því eins konar fjölskylduáhugamál þar sem fjöldi minninga sitja eftir í hjarta og huga Fannars.

Word of Warcraft.
Word of Warcraft. Grafík/Activision Blizzard

Ennþá smá kjánahrollur

Í samtali við mbl.is minnist Fannar sérstaklega á ákveðið atvik sem hefur setið í honum til margra ára en það tengist einmitt World of Warcraft.

„Félagi pabba hafði leyft honum að prófa aðganginn sinn í WoW og ég komst svo í hann. Ég ætlaði svoleiðis að græða pening fyrir hann og seldi allt besta dótið hans fyrir smá aur en áttaði mig ekki á því hvað ég væri að gera.“

„Það gefur mér smá kjánahroll ennþá í dag, sorrý Gaui!“

Fullur þakklætis

Að lokum þakkar Fannar sérstaklega öllum þeim sem hafa komið að starfi Atgeira og styðja við liðið:

Agnar Levy, heilsu- og hreyfingarþjálfara Atgeira, sem er mikill íþróttamaður og hefur veitt liðinu mikinn innblástur í þeim málum.

Aðstoðarþjálfari Atgeira, Magni Marelsson, fær einnig sérstakar þakkir og segir Fannar hann vera ómetanlegan í þeim verkefnum sem honum hefur treyst fyrir.

Fannar þakkar einnig Valgeir Inga, sjúkraþjálfara og lukkudýri liðsins, sem veitir góða innsýn og heldur í tauminn, og passar að þeir hlaupi ekki fram úr sér.

Síðast en ekki síst þakkar hann Hugin Orra Hafdal sérstaklega en hann er liðinu mjög mikilvægur við að undirbúa viðureignir og sér þar að auki sér hann um alla upplýsinga- og gagnasöfnun um andstæðinga.

Fannar streymir ekki sjálfur en Oklokarr, leikmaður Atgeira, er hins vegar duglegur að streyma á milli kóræfinga. Hægt er að fylgjast með honum Twitch-rásinni Oklokarr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert