Upphitun fyrir stórmót í CS:GO

Næsta stórmót fer fram í Rio De Janeiro.
Næsta stórmót fer fram í Rio De Janeiro. Grafík/Intel extreme masters

Átjánda stórmótið í skotleiknum CS:GO fer fram 31. október til 13. nóvember næstkomandi og fer mótið fram í Rio De Janeiro í Brasilíu.

Upprunalega átti mótið að fara fram í Rio fyrir tveimur árum síðan en var blásið af í aðdraganda mótsins árið 2020 vegna fjölda kórónuveirusmita í landinu.

Mótinu var frestað fram í nóvember sama ár en svo var því aftur frestað af sömu ástæðum

Stórar fjárupphæðir
Í janúar 2021 var svo tilkynnt að mótið yrði þess í stað haldið í Stokkhólmi og mótshald í Brasilíu sett á ís. Valve, framleiðandi leiksins, tilkynnti mótshöldurum að þeir myndu leggja til peningastyrk í formi verðlaunafés og átti það að vera hæsta vinningsfé í sögu leiksins eða tvær milljónir bandaríkjadala.

En nú er komið að því, Rio De Jainero fær loksins að halda stórmótið í CS:GO og verður leikið í Jeunesse Arena sem getur hýst allt að 18.000 áhorfendur í sæti. Spennan er mikil og Brasilía er með allt klárt fyrir mótið.

Auk þess að vera með höll sem hýsir um 18.000 áhorfendur verða mótshaldarar einnig með skjái fyrir utan höllina þar sem áhorfendur geta safnast saman og fylgst með mótinu þrátt fyrir að vera ekki með miða, enda löngu uppselt á viðburðinn.

Jeunesse Arena í Brasilíu.
Jeunesse Arena í Brasilíu. Ljósmynd/Intel Extreme Masters

Allt undir

Alls taka 24 lið þátt í mótinu en leikið verður í tvær vikur, á þremur sviðum. Mótið hefst á umspilsleikjum þar sem 16 lið sem unnu sér inn þátttökurétt á mótinu í gegnum riðlakeppnir takast á og reyna komast upp úr umspilsriðlinum.

Einungis átta lið munu komast áfram og því mikið undir á fyrstu dögum mótsins.
Þegar umspilsleikirnir klárast og komið hefur í ljós hvaða átta lið komast áfram, mæta þau stærstu átta liðum mótsins og þá hefjast 16 liða úrslit fyrir framan áhorfendur á stærsta sviðinu.

Eitt sigurlið stendur uppi eftir þetta allt saman og mun hljóta hálfa milljón bandaríkjadala í verðlaun, sem og þátttökurétt á næsta stórmót. Það sem eftir stendur af verðlaunafénu skiptist svo niður á hin liðin en heildarupphæð verðlaunafés er yfir eina milljón bandaríkjadala.

Fyrsti leikur í umspilinu er 31.október næstkomandi klukkan 14:00 og úrslitakeppnin hefst svo 5 dögum síðar eða 5.nóvember!

Mbl.is verður með umfjöllun og fylgist vel með þessu stórmóti í CS:GO þegar nær dregur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert