Sterk viðbrögð við lokun Ground Zero komu á óvart

Kristinn Ingi Hrafnsson og Sigurður Jónsson, stofnendur lansetursins Ground Zero.
Kristinn Ingi Hrafnsson og Sigurður Jónsson, stofnendur lansetursins Ground Zero. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmenn og eigendur Ground Zero, eða fjölskyldan á Ground Zero, hafa í mörg horn að líta þessa dagana þar sem lansetrinu verður lokað um helgina, eftir tuttugu ára rekstur.

Um þessar mundir er verið að selja tölvur, tölvubúnað, listaverk og fleira ásamt því að fjöldi fólks ýmist heimsækir staðinn eða sendir hlýleg skilaboð þar sem þakklæti og vinahót eru tjáð.

Þetta er bara verkið í dag

Kristinn Ingi Hrafnsson og Sigurður Jónsson, eigendur Ground Zero, sem gjarnan eru kallaðir Siggi og Ingi, hafa því í nógu að snúast og gefst lítill tími til annarra verkefna.

„Það er bara svo mikill tími og vinna sem fer í þetta núna, bara að halda utan um og klára þetta dæmi. Það gefst ekki tími til að hugsa neitt,“ segir Siggi í samtali við mbl.is.

Því er ekki nema von að menn verði þreyttir og sammælast þeir um að þegar þetta er afstaðið verði stefnan tekin á slökun eftir stritið.

„Það er ekkert þannig séð við sjóndeildarhringinn sem bíður, þetta er bara verkið í dag,“ segir Siggi en bætir við að hann „langi einna helst að fara á sólarströnd og liggja með tærnar upp í einhvern tíma“.

„Ég ætla í frí, ég er búinn að vera í þessu í tuttugu ár og hef eiginlega ekki farið í frí,“ segir Ingi í samtali við mbl.is.

Ground Zero eins og stór klúbbur

Óhætt er að segja að þetta séu mikil tímamót séu hjá fjölskyldunni á Ground Zero sem og þeirra sem eiga margs að minnast frá staðnum.

„Mér finnst þetta mjög leiðinlegt auðvitað, maður er búinn að kynnast svo mörgu fólki og Ground er miklu meira en bara staður,“ segir Ingi.

„Maður er búinn að horfa á krakka koma hingað og spila, sem er núna að koma hingað með syni sína og spila. Maður er búinn að kynnast alveg fullt af frábæru fólki og það er sérstakur andi í húsinu, sérstaklega hjá þeim í kjarnanum hérna.“

„Þetta er alveg sér samfélag, þetta er eins og stór klúbbur. Nokkuð sem fólk gerir sér ekki grein fyrir hvað er í raun og veru fyrr en það prófar að vera með í þessum klúbb. Þá skynjarðu þennan anda sem myndast,“ segir Siggi.

Greinilega djúpt í sálu fólks

Auk þess að gæðastundir á Ground Zero berist á milli kynslóða segir Ingi frá stjúpbræðrum sem bundust vinaböndum með því að spila saman á staðnum.

„Þegar hann og stjúpbróðir hans voru ósáttir, þá fóru þeir að spila á fyrsta Groundinu hjá okkur. Það lagaði sambandið þeirra og þeir urðu vinir,“ segir Ingi og bætir við hvað sé gaman að heyra slíkar sögur.

Vert er að nefna að fólk sem hefur kannski ekki sést lengi á Ground Zero hefur haft samband að undanförnu og tjáð sig um missi og að lokun staðarins sé áfall.

„Í raun og veru kom það okkur á óvart hvað það eru sterk viðbrögð, hvað þetta er djúpt í sálinni á fólki greinilega,“ segir Siggi.

„Það er það sem við upplifum hérna líka og maður skynjar þetta sjálfur betur núna. Kannski einmitt vegna áhrifanna sem þetta hefur á fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert