Jafnt á toppnum

Stórmót í Counter-Strike fer fram í Brasilíu.
Stórmót í Counter-Strike fer fram í Brasilíu. Grafík/IEM

Counter-Strike stórmótið sem fer fram í Rio De Janeiro er rétt handan við hornið og margir velta fyrir sér hver fari með sigurinn af hólmi. Tekist verður hart á í Brasilíu en 16 sterkustu liðin hefja leik á meistarasviði (e. Legend Stage) Jeunesse hallarinnar þann 5. nóvember næstkomandi.

Liðin 16 munu reyna að tefla öllum sínum brögðum til þess að standa uppi sem sigurvegari og taka heim verðlaunaféð sem er hálf milljón bandaríkjadala að þessu sinni, fyrir fyrsta sæti í mótinu.

Þegar minna en vika er til stefnu þar til stórmótið hefst á umspilsleikjum er spáð í spilin: Hver mun vinna mótið í ár?

Tvö líklegustu liðin

Árið 2022 hafa tvö lið staðið upp úr og hafa verið með yfirburða frammistöður í leikjum. Það eru liðin FaZe og Natus Vincere. Þau mættust síðast í úrslitaleik í Köln þar sem margur hefur svitnað á lófunum við það eitt að horfa á þau kljást.

Það sást greinilega í þeim leik að þarna væru tvö lið á toppnum og að erfitt myndi vera fyrir hin liðin að ná þeim í getu.

Gengur ekki alltaf vel

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þessi úrslitaleikur var spilaður, á síðasta stóra móti sem liðin spiluðu, „ESL Pro League“, duttu bæði liðin út í átta liða úrslitum og bæði liðin töpuðu gegn liðum sem fóru svo ekkert lengra í keppninni.

S1mple talinn besti leikmaður heims.
S1mple talinn besti leikmaður heims. Ljósmynd/HLTV

Bæði liðin, FaZe og Natus Vincere, hafa átt erfitt uppdráttar í keppnum upp að þessu stórmóti, en þó geta Natus Vincere aðdáendur verið örlítið bjartsýnir þar sem stjörnuleikmaður þeirra, Oleksandr „s1mple“ Kostyliev, sem er talinn vera einn besti leikmaður heims skrifaði nýverið undir nýjan þriggja ára samning og verður því í toppmálum í Brasilíu.

Lítill munur milli liða

Fyrir keppnina í Rio er staða liðana skoðuð og má sjá að það eru einungis 300 stig sem skilja að efstu sex liðinn á heimslistanum í Counter-Strike og því verður gaman að fylgjast með mótinu þar sem öll liðin eiga tækifæri á að lyfta bikarnum í ár.

Styrkleikalisti í Counter-Strike.
Styrkleikalisti í Counter-Strike. Grafík/HLTV

Ekki mikil von fyrir minni liðin

Ef skoðuð er tafla þar sem rýnt er í liðin og þeim gefin stig fyrir velgengni undanfarna mánuði má sjá að þau lið sem komu inn í gegnum umspil sitja í lægstu sætunum á mótinu, en þau átta sem unnu sér inn rétt að spila beint á meistarasviðinu eru líklegri til að vera í efstu 8 sætunum. Það getur þó allt gerst í tölvuleikjaheiminum og ekki ólíklegt að við munum sjá óvænt úrslit í ár.

Styrkleikalisti fyrir stórmótið í Brasilíu.
Styrkleikalisti fyrir stórmótið í Brasilíu. Grafík/HLTV
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert