Stórmót í Counter-Strike hefst í dag

FaZe eru sigurstranglegir.
FaZe eru sigurstranglegir. Ljósmynd/HLTV

Undankeppni stórmóts í Counter-Strike byrjar í dag þar sem 16 lið takast á um að reyna komast í úrslitakeppnina sem byrjar eftir viku. Einungis átta pláss eru eftir í úrslitakeppnina og því er til mikils að vinna.

Sviðið að taka á sig mynd

Í undankeppninni verða tveir leikir spilaðir samtímis. Á sviðinu eru því fjögur lið að keppa á sama tíma, á sama sviðinu.

Sýnt verður frá báðum leikjunum á hvorum skjánum fyrir sig. 

Búist er við því að höllin sem hýsir undankeppnina taki um 4.000 manns í sæti. Þess má geta að úrslitakeppnin verður leikin í höll sem tekur 18.000 manns í sæti.

Höllin tilbúin að taka á móti gestum.
Höllin tilbúin að taka á móti gestum. Ljósmynd/ESL

Allir vilja vinna

Það eru mörg sterk lið að taka þátt í þessu stórmóti og því er nánast ómögulegt að segja til um það hver muni sigra.

Sterkustu liðin eru FaZe, Natus Vincere og Vitality og margir sem spá þeim sigri og alveg öruggt að það verður markmið hinna liðanna að reyna að stoppa þau.

Til mikils að vinna

Verðlaunin eru ekki af verri endanum en sigurliðið fær afhentar 72 milljónir íslenskra króna sem og þátttökurétt á næstu tveimur stórmótum.

Sýnt verður frá mótinu á tveimur Twitch rásum mótshaldarans ESL_CSGO og ESL_CSGOb. Einnig verður sýnt frá mótinu á Arena þjóðarleikvangi rafíþrótta í Kópavoginum ef fólk vill gera sér glaðan dag og horfa saman á mótið.

Fyrstu leikirnir byrja í dag klukkan 14 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert