Spáð tapi en unnu stærsta titilinn

Fyrsta stórmótið sem rafíþróttaliðið Outsiders vinnur.
Fyrsta stórmótið sem rafíþróttaliðið Outsiders vinnur. Ljósmynd/HLTV

Óvænt úrslit urðu um helgina þegar Outsiders, lið sem margir spáðu góðu gengi en ekki sigri í mótinu, vann titilinn gegn Heroic en bæði liðin voru talin lítilmagnar (e. underdogs) í upphafi móts.

Þetta er fyrsti sigur Outsiders á stórmóti í sögu félagsins.

Óvæntar viðureignir

Þetta var sérkennileg úrslitakeppni á stórmótinu í Brasilíu þar sem flest lið sem tróna á toppi heimslistans duttu úr leik hvert eftir annað.

Úrslitaviðureignin Outsiders gegn Heroic var þó æsispennandi.

Outsiders fengu að spila sitt kortaval í fyrsta leiknum gegn Heroic og vann þann leik 16-12 og þurfti því einungis einn sigurleik í viðbót til að vera krýndir sigurvegarar mótsins.

Í öðru kortinu sem spilað var byrjaði Heroic vel en um leið og Outsiders komust á bragðið stungu þeir þá af og enduðu á að vinna stórmótið með 2-0-sigri á Heroic.

Stærsta mót í sögunni

Mikið var rætt um fyrir mót að Brasilía myndi verða eitt stærsta mót í sögunni áhorfendalega séð og aðdáendur rafíþróttarinnar í Brasilíu eru margir og virkir.

Það virðist þó hafa haft áhrif á áhorfið að stórliðin duttu snemma úr leik og brasilísku liðin sömuleiðis.

Skemmtileg viðureign átti sér þó stað þegar heimaliðið Furia mætti Natus Vincere. Þetta var ein stærsta viðureign mótsins og var troðfull höll af aðdáendum Furia að styðja þá.

Lætin voru svo gífurleg að ekki var víst að hljóðeinangrandi heyrnatól leikmannanna myndu vera nóg.

Hér má sjá þegar Furia tók sigurinn gegn Natus Vincere.

Outsiders tryggðu sér þátttökurétt á seinasta stórmóti sem hefst eftir mánuð í Abu Dhabi sem og hálfa milljón bandaríkjadollara í verðlaunafé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert