Aukinn stuðningur við rafíþróttir

Þingið kom saman og kaus.
Þingið kom saman og kaus. Ljósmynd/EP

Evrópuþingið tilkynnti í vikunni að aukinn stuðningur yrði við rafíþróttir í álfunni sem meðal annars felur í sér aukinn fjárstuðning við lið til þess að styðja við uppbyggingu þeirra og gera þannig rafíþróttum hærra undir höfði.

Mikill fjöldi þingmanna var viðstaddur umræðurnar og 560 meðlimir Evrópuþings kusu í kosningum um málefnið sem hafa haft langan aðdraganda og biðu margir spenntir eftir úrslitum kosninganna.

Stuðningurinn var samþykktur með miklum meirihluta en 526 kusu með auknum stuðningi og einungis 34 gegn.

Rafíþróttir sækja í sig veðrið

Rafíþróttagreinar hafa þróast gríðarlega hratt að undanförnu og hefur aukning í fjölda spilara og áhorfenda verið mikil.

Rafíþróttir hafa einnig náð eyrum stjórnmálamanna hér á landi  þar sem tillaga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um meiri stuðning Reykjavíkurborgar til rafíþróttaliða í Reykjavík var samþykkt nýlega.

Í tillögunni kom fram að rafíþróttir nytu sívaxandi vinsælda og biðlistar væru vegna mikillar aðsóknar í greinina en töluverður kostnaður fylgdi því að koma upp rafíþróttadeildum.

Mikill vöxtur innan Evrópu

Stuðningur Evrópuþingsins við greinina markar tímamót þar sem rafíþróttir fá nú viðurkenningu frá opinberum aðilum þar sem greinilega er horft jákvæðum augum til framtíðar rafíþrótta.

Í Evrópusambandsríkjum er talið að um 80.000 manns hafi atvinnu af tölvuleikjum og rafíþróttum og eru um 5.000 leikjaframleiðendur með starfsemi sína og höfuðstöðvar í Evrópu.

Stuðningur Evrópuþingsins snýr að því að fjárfesta í liðum og leikmönnum, gera þeim kleift að æfa í fullkomnum aðstæðum, ráða inn góða þjálfara og halda stóra rafíþróttaviðburði í Evrópu.

Sóknartækifæri

Íslendingar búa vel að því að hér á landi er unnið að þjálfun yngri flokka með faglegum hætti og grasrótarstarfið er gott, en nauðsynlegt er að styðja áfram við þessa vaxandi grein.

Sem dæmi um þróun í þessum málaflokki hér á landi gerðu Rafíþróttasamtök Íslands á dögunum samstarfssamning við ungt íslenskt fyrirtæki, Esports Coaching Academy, um dreifingu á æfinga- og stuðningsefni sem aðstoðar rafíþróttaþjálfara við störf sín.

Má því segja að framtíðin sé björt hérlendis og mörg sóknartækifæri í rafíþróttagreinum á komandi árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert