Hætta að nenna að spila tölvuleiki heima

Tölvurnar eru samtals 20 um þessar mundir.
Tölvurnar eru samtals 20 um þessar mundir. Ljósmynd/Sævar Breki

Íþróttafélagið Þór á Akureyri er með stóra rafíþróttadeild sem er næststærsta deildin hjá Þór á eftir knattspyrnunni. Félagið hefur fengið góð viðbrögð frá foreldrum og er með háleit markmið fyrir framtíðina.

Byrjaði smátt

Rafíþróttadeild Þórs er í húsi við fótboltavöllinn þeirra og þar fá krakkarnir að æfa undir stjórn þjálfara áður en haldið er inn og tölvurnar ræstar.

Bjarni Sigurðsson, formaður rafíþróttadeildarinnar, var formaður píludeildarinnar sem fékk nýtt húsnæði og fannst honum upplagt að rafíþróttadeildin fengi gamla húsnæði píludeildarinnar. 

„Stjórn Þórs sem þá sat tók virkilega vel í það, það var auglýstur stofnfundur og fyrsta stjórnin setti upp 10 tölvur fyrst, svo fórum við upp í 20 eftir 3 mánuði.“

Fyrir neðan húsnæðið er bæði fótboltavöllur og hlaupabraut sem gerir þjálfurum kleift að búa til skemmtilegar æfingar fyrir krakkana en draumurinn sé þó að fá aðgengi að sal fyrir hreyfingu allt árið.

„Eins og staðan er í dag eru utanhússhlaupabrautirnar ekki það besta yfir veturinn og við viljum aðstöðu með aðgangi að sal.“

Aðstaða rafíþróttadeildarinnar.
Aðstaða rafíþróttadeildarinnar. Ljósmynd/Sævar Breki

Skemmtileg námskeið

Hjá Þór er hægt að skrá sig í tvö námskeið, annarsvegar námskeið sem sérhæfir sig í keppnisleikjum og svo námskeið sem heitir Rafíþróttablandan. Þór er líka með valgreinar í grunnskólunum á Akureyri fyrir nemendur í 8.-10.bekk.

Að sögn Bjarna eru námskeiðin yfirfull og gríðarlega góð viðbrögð frá foreldrum.

„Við byrjum snemma, árið 2020, á undan „hæpinu“ og vorum þá með námskeið en engin keppni var þá tilbúin fyrir krakka og rafíþróttadeildir landsins ekki komnar. Við vorum í samstarfi við RÍSÍ og plön um að fjölga keppnum og hafa keppnir í enda hvers tímabils gengið upp og fjölgað mikið.“

Námskeiðin eru sett upp með hreyfingu og hamingju í forgangi.

Tímarnir eru einn og hálfur klukkutími í senn og fara fyrstu 15-20 mínúturnar í hreyfingu, svo í fræðslu og svo loks er spilað. 

Uppsetning á tölvum árið 2020.
Uppsetning á tölvum árið 2020. Skjáskot/FacebookÞór

Foreldrar ánægðir

„Við vorum með foreldrafræðslu og þar vaknaði skilningur á greininni og verið tabú lengi að það megi ekki vera í tölvuleikjum og þetta sé tímaeyðsla en foreldrar gera sér almennt ekki grein fyrir tekjumöguleikum í þessari grein, sem eru gríðarlegir. Við viljum hafa foreldrakynningu á hverju ári.“

„Foreldrar og skólar banna tölvur og síma, en í rauninni ætti að kenna krökkum að umgangast þessa hluti í stað þess að banna þá!“

Áherslu á heild

Að vera hluti af heild er gaman fyrir allra, að líða vel í félagi og eiga liðsfélaga er gríðarlega mikilvægt fyrir alla iðkendur, sama hvað er iðkað.

„Við viljum búa til keppnisumhverfi þannig að krakkarnir hafi eitthvað að stefna að. Að krakkarnir myndi tengsl, félagsleg tengsl. Við heyrum af því að krakkar hætta að nenna að spila heima eftir að þau byrja æfa hér, þeim finnst ekki eins gaman að spila heima eins og að vera hér og keppa saman hlið við hlið.

Einnig er hægt að spila í PS5 tölvum.
Einnig er hægt að spila í PS5 tölvum. Ljósmynd/Sævar Breki

Við byrjum allar æfingar í klefanum, þau hittast þar svo að þau finni að þau eru hluti af félaginu áður en þau fara á æfinguna.“

Hægt er að fræðast meira um rafíþróttadeild Þórs á heimasíðunni þeirra. Keppt er í leikjunum Counter-Strike, Valorant og Rocket League en rafíþróttablandan býður upp á fleiri leiki líkt og Minecraft og Fortnite.

Þór ætlar að innleiða þjálfunaraðferðir Esports Coaching Academy um áramótin.

Hvaða eldhús fær þitt atkvæði?

  • Sigtýr Ægir
  • Móna Lind
  • Kleópatra Thorstensen
  • Birta Amarie
  • Adinda Marita
mbl.is