Missti þrjátíu kíló af fitu með rafíþróttum

Brynjar Þór „BBRX“ Bergsson, liðssstjóri og yfirþjálfari LAVA Esports.
Brynjar Þór „BBRX“ Bergsson, liðssstjóri og yfirþjálfari LAVA Esports. Ljósmynd/Aðsend

Hjá íslenska rafíþróttaliðinu LAVA Esports er lögð mikil áhersla á líkamlega hreysti. Leikmenn LAVA fá því aðgang að líkamsræktarstöðvum World Class og er leiðbeint um við æfingar og mataræði.

Þá er vert að nefna að Brynjari Þór „BBRX“ Bergssyni, liðsstjóra og yfirþjálfara LAVA, hefur tekist að missa um 30 kíló af fitu frá því í apríl á þessu ári samhliða því að stunda rafíþróttir.

Rafíþróttaliðið LAVA Esports með Arena-bikarinn.
Rafíþróttaliðið LAVA Esports með Arena-bikarinn. Ljósmynd/LAVA Esports

„Við hjá LAVA leggjum áherslu á líkamlega hreysti og lá það þá beint við að ég myndi sýna gott fordæmi og rífa mig í gang,“ segir Brynjar Þór í samtali við mbl.is.

Þá bætir hann við að það sé grundvallaratriði erlendis að einkaþjálfarar, næringarfræðingar og fleiri starfi með liðunum.

Ekki nóg að setjast bara við tölvuna

„Rétt eins og í öðrum íþróttum þá þarf úthald og einbeiting að vera til staðar. Rafíþróttamót standa í marga klukkutíma fram eftir og stærri mótin í marga daga. Það hefur því klárlega verið vitundarvakning innan senunnar hérlendis og erlendis að það er ekki nóg að setjast bara við tölvuna og halda að maður sé alltaf í sínu besta standi.“

Brynjar æfir sjálfur fjórum til fimm sinnum í viku og segir það henti best að fara á kvöldin þegar hann hefur komið dætrum sínum í háttinn. Þá fylgir hann eftir ströngu æfingaplani frá Jóhanni V. Norðfjörð, góðum vini Brynjars, sem hann segir jafnframt vera meistara í sínu fagi.

Brynjar Þór „BBRX“ Bergsson, liðsstjóri og yfirþjálfari LAVA Esports, hefur …
Brynjar Þór „BBRX“ Bergsson, liðsstjóri og yfirþjálfari LAVA Esports, hefur misst 30 kíló af fitu frá því í apríl á þessu ári með rafíþróttaiðkun. Ljósmynd/Aðsend

Geta gripið í taumana

Þó leikmenn LAVA fái aðstoð við að útbúa hentugt æfingaplan og matarplan þá njóta þeir mikils sjálfstæðis varðandi eigin hreysti. Þá er þeim ekki endilega skylt að æfa fjórum til fimm sinnum í viku, þó þeir hafi möguleika á því.

„Við erum ekki með kvaðir á okkar leikmenn, að þeir þurfi að gera eitthvað ákveðið. Samningarnir okkar gera þó ráð fyrir því að við getum gripið í taumana ef einhver er kominn út fyrir velsæmismörk þegar kemur að hreysti eða heilsu.“

Rekur bölvunina til mataræðis og svefns

Sem fyrr segir geta viðureignir í rafíþróttum verið nokkuð langdregnar og er því mikilvægt að vera vel í stakk búinn til þess að geta haldið einbeitingu og verið á tánum út viðureignina. 

„Það hefur oft verið talað um „lan-bölvunina“ sem hvílir yfir ákveðnum liðum erlendis,“ segir Brynjar.

Hann telur að þessa bölvun megi oft rekja til lélegs mataræðis og ónógs svefns. Lið séu að leika lausum hala og gleyma sér í fjöri og skyndibita þegar þau mæta á staðinn.

„Það er oft stutt á milli sigurs og taps og einbeitingin skiptir gríðarlegu máli. Það er oft erfitt að mæla þennan árangur en hann kemur oft í ljós seint í keppnum.“

mbl.is