Ósáttir með lánsmann á bikarmóti

Rafíþróttahöllin Arena í Kópavogi.
Rafíþróttahöllin Arena í Kópavogi. Ljósmynd/Arena

Tveir gaurar efndu nýverið til bikarmóts í rafíþróttahöllinni Arena og var þá keppt í tölvuleiknum League of Legends.

Mótið fór þannig fram mótsstjórarnir Sölvi Karlsson og Hafliði Örn Ólafsson, betur þekktur sem Flati, höfðu skipað nokkra liðsstjóra sem áttu síðan að kjósa skráða þátttakendur í liðin sín.

Mikið var um glens og gaman hjá keppendum sem áhorfendum en það var liðið hans Þorbjarnar Óskars Arnmundssonar „kookie“, Bing qi ling, sem endaði á því að vinna mótið.

Besti leikmaðurinn hoppaði í skarðið

Í samtali við mbl.is segir Flati að vel hafi gengið á mótinu en segir frá óánægju nokkurra leikmanna yfir leikmannaskiptum í liði Kjartans Daníels Helgasonar „Icelandic Hero“, Team NA.

„Mótið gekk sjúklega vel, það voru reyndar nokkrir leikmenn pirraðir af því það var einn í einu liðinu sem komst ekki á laugardeginum,“ segir Flati.

„Þannig að hann fékk LANG besta leikmann Íslands til þess að hoppa í skarðið og þeir rústuðu öllum í neðra leikjatrénu og komust upp í úrslit, en töpuðu reyndar þar 2:0.“

Umræddur leikmaður, Aron Gabríel Guðmundsson „Hoiz“, átti því stóran þátt í að koma Team NA upp í úrslit eftir að hafa dottið niður í neðra leikjatré í annarri umferð mótsins.

Kominn aftur á skrið

Var því mikið um að vera á mótinu og baráttan um bikarinn mikil og virðist Flati vera kominn aftur á skrið en hann hefur verið í pásu frá mótahaldi.

Þrátt fyrir óánægju með leikmannaskiptin segir Flati að leikmenn hafi verið hæstánægðir og eins áhorfendur í spjallglugganum á Twitch-útsendingunni.

„Þetta var virkilega skemmtilegt mót. Ég var búinn að taka mér pásu í mótahaldi frá því í vor og var mjög spenntur að koma inn aftur. Leikmenn voru mjög ánægðir að fá aftur mót til að spila í og mikið fjör var í Twitch chattinu að fá að horfa á Íslenskt mót aftur,“ segir Flati.

„Mig langar að halda fleiri svona lítil mót á næsta ári, ég er ekki viss um að það gangi upp að vera með deild eins og áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert