FH semur við SAGA Esports

Á myndinni sjást Kristófer Daði Kristjánsson stofnandi SAGA Esports og …
Á myndinni sjást Kristófer Daði Kristjánsson stofnandi SAGA Esports og Viðar Halldórsson formaður FH. Mbl.is/Sævar Breki Einarsson

Fimleikafélag Hafnafjarðar hefur samið við keppnislið SAGA Esports og munu liðsmenn SAGA keppa undir merkjum FH hér eftir. FH hefur sett sér háleit markmið fyrir 2023 og mun setja á stofn rafíþróttadeild seinna á árinu.

Til stendur að innrétta um 100 fermetra rými í Kaplakrika til þess að hýsa rafíþróttadeildina og geta því krakkar í Hafnarfirði flykkst þangað að æfa rafíþróttir.

Rafíþróttadeild FH mun koma til með að vera í Kaplakrika.
Rafíþróttadeild FH mun koma til með að vera í Kaplakrika. Mbl.is/Sævar Breki Einarsson

Keppnislið SAGA, nú FH,  í Counter-Strike er sem stendur í þriðja neðsta sæti Ljósleiðaradeildarinnar en er þó einungis tveimur stigum frá fjórða sæti og því spurning hvort þessi breyting muni blása liðinu byr undir báða vængi fyrir seinni hluta tímabilsins.

Mbl.is ræddi við Kristófer Daða Kristjánsson, stofnanda SAGA Esports:

Hvernig lýst þér á að spila undir merkjum FH?

„Ég sé þetta sem stórt tækifæri bæði fyrir FH og okkur, báðir aðilar græða á þessu. Þeir sjá hag sinn í að efla ungmennastarfið og bjóða upp á rafíþróttir og við fáum þá eitthvað fyrir það sem við erum að gera. Saga var stofnað árið 2020 en við höfðum lengi spilað saman sem liðsheild, góður kjarni. Við þurfum bara læra vera á sama tempói og spila á því saman og þá gætum við unnið hvern sem er.“ 

Treystir á sína menn

Einnig nefnir Daði leikmannabreytingar. „Það er búið að vera mikið af leikmannabreytingum í liðum og gæti ég trúað að þær séu neikvæðar fyrir liðin, það mun taka tíma að venjast breytingum og nýjum leikmönnum.Við erum ennþá í spilinu, einn sigur og við hoppum upp um mörg sæti.“

Aðspurður um markmið liðsins þá eru þau svipuð og áður „Við viljum taka seinni hluta tímabilsins og sýna betur hvað í okkur býr, við sýndum í BLAST Qualifiernum að við erum mun sterkari en röð okkar í deildinni segir til um en númer 1,2 og 3 er að sýna FH að þeir séu að velja rétt með því að veðja á okkur.“ 

FH mun keppa sinn fyrsta leik í Ljósleiðaradeildinni, annað kvöld klukkan 19.30 gegn toppliði Atlantic Esports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert