Komin með nýja aðstöðu eftir lokun Ground Zero

Mynd af rafíþróttaaðstöðu Ármanns.
Mynd af rafíþróttaaðstöðu Ármanns. Ljósmynd/Ármann

Lokun lansetursins Ground Zero á síðasta ári snerti svo sannarlega við landanum, enda hafa tölvuleikjaspilarar sem aðrir fengið að spila og spjalla hjá þeim í um tuttugu ár. Reyndar hafði lokunin einnig áhrif á unga rafíþróttamenn þar sem rafíþróttadeild Ármanns var með æfingaaðstöðu sína í Ground Zero.

Þegar setrið lokaði var strax farið í að leita lausna svo iðkendur gætu stundað sína íþrótt áfram. Í dag eru æfingar komnar á fullt skrið þar sem rafíþróttadeild Ármanns er komin með sína eigin og glæstu rafíþróttaaðstöðu í Ármannsheimilinu sjálfu.

Leysa málið saman

Í samtali við mbl.is segir Alexander Berg, hjá rafíþróttadeild Ármanns, að honum hafi þótt mjög vænt um hversu stuðningsríkt félagið var í kringum þetta allt saman.

„Þeir sýndu einbeittan vilja á því að halda starfinu gangandi og enduðum við á að koma okkur upp aðstöðu í Ármannsheimilinu. Það voru allskonar lausnir skoðaðar áður en við tókum þá ákvörðun,“ segir Alexander.

Hann segir nýja aðstöðuna vera glæsilega og er búnaðurinn fullkominn til rafíþróttaiðkunnar, þar til viðbótar eru salir innanhúss þar sem líkamlegu æfingarnar fara fram.

„Í byrjun hverrar æfingar förum við yfirleitt í Júdósalinn (takk júdódeild Ármanns) og tökum líkamlega æfingu. Þar höfum við aðgengi að sal sem er með ketilbjöllur, assult bike, róðrarvél, lyftingarbekk og fleira.“

„Þar getum við tekið allskonar æfingar eða farið í skotbolta eða aðra skemmtilega leiki.“

Óvæntur áhugi frá eldri hópnum

Nú er Ármann með tíu tölvur og eru því tíu iðkendur í hverjum hóp, en alls eru fjórir hópar sem reyndar eru við það að fyllast. Þrír hópar eru ætlaðir yngri iðkendum og eru þeir frá tíu til þrettán ára en í eldri hópnum eru iðkendur frá fjórtán til átján ára.

„Það kom verulega á óvart að eftir að við fluttum þá var eldri hópurinn fyrsti hópurinn til að fyllast,“ segir Alexander og ef eftirspurnin umfram þá hópa þá verði klárlega bætt við öðrum hóp.

Nánari upplýsingar um rafíþróttadeild Ármanns og starfið sem fer þar fram má finna með því að fylgja þessum hlekk.

Værir þú til í að spila tölvuleik á íslensku?

  • Já klárlega
  • Nei helst ekki
  • Hef ekki sterka skoðun á því
mbl.is