Synir Lúlla neðstir á lokasprettinum

Kraftvéladeildin í Dota 2.
Kraftvéladeildin í Dota 2. Grafík/Dota á Íslandi

Kraftvéladeildin í Dota 2 er í fullu fjöri en jafnframt á lokasprettinum, þar sem úrslitin eru rétt handan við hornið.

Útsláttarkeppnin er hafin og verða úrslitin spiluð innan tveggja vikna, eða á sunnudeginum 29. janúar.

Nýliðar bætt sig á mótinu

Bergur Árnason „flying“, í mótastjórn Kraftvéladeildarinnar sem og keppandi, segir í samtali við mbl.is að gangurinn hafi verið þéttur í Kraftvéladeildinni upp á síðkastið og samheldnin í samfélaginu einnig mikil. 

Þá er mótastjórn einnig gríðarlega ánægð með þátttöku nýliða á mótinu og segir Bergur að sérstaklega gaman sé að fylgjast með því hversu mikið þeir hafa bætt sig á mótinu.

„Við erum búnir að vera mjög ánægðir með nýliðaþáttöku á mótinu og gaman að sjá hversu mikið þeir hafa bætt sig yfir mótið og hversu vel samfélagið tekur á móti nýjum og áhugasömum spilurum, segir Bergur í samtali við mbl.is.

„DOTA er gamall leikur með frekar háan meðalaldur, fyrir tölvuleikjasamfélag, og þess vegna fögnum við alltaf þegar að nýjir leikmenn bætast í hópinn.“

SÍLD komin á laggirnar 

Úrslitin verða spiluð í rafíþróttahöllinni Arena og stendur til að sýna frá þeim í beinni útsendingu. Þá verður útsendingin fyrst á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands en færist svo yfir á Twitch-rás Dota-samfélagsins klukkan 17:00 þegar komið er að Valorant-útsendingu RÍSÍ.

„Við erum búnir að vera mjög ánægðir með hversu vel hefur gengið að senda út leiki á Twitch en við höfum náð að senda út flesta leiki og verið að lýsa leikjunum af sirka 6 mismunandi Twitch rásum,“ segir Bergur.

„Þá var áhugamannafélagið „Samband íslenskra lýsenda í DOTA“, SÍLD, stofnað fyrir þennan vaxandi hóp lýsenda og Ægir Björn á heiðurinn að því ágæta nafni.“

Stefndu hátt og eru stigahæstir

Í síðasta mánuði greindi mbl.is frá nýju Dota-liði Fylkis og að liðið stefni hátt á tímabilinu, en meðal leikmanna í Fylki er Atli Snær Sigurðsson, undrabarn í Dota 2. Svo virðist vera sem Fylkir standi undir metnaði þar sem liðið er nú stigahæst með 22 stig og enn taplaust á mótinu.

„Það má sjá merkjanlegan mun á keppnisstigi í Kraftvéladeildinni, það er að segja hversu alvarleg og erfið samkeppnin er, miðað við fyrri DOTA-mót,“ segir Bergur.

„Þar á íþróttafélagið Fylkir og DOTA-lið þeirra hrós skilið þar sem að þeir hafa sýnt og sannað hversu góðum niðurstöðum er hægt að ná með góðum æfingum, þrautseigju og keppnisskapi.“

Rétt undir Fylki eru Kórdrengir með 18 stig og Frændafli með 15 stig þar á eftir. Vert er að nefna að Synir Lúlla hafa enn ekki unnið eða jafnað leik á tímabilinu, og sitja neðstir í deildinni með engin stig og ellefu tapleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert