Synir Lúlla léttir í lund þrátt fyrir að skíttapa

Rafíþróttahöllin Arena.
Rafíþróttahöllin Arena. Ljósmynd/Arena

Í Kraftvéladeildinni má sjá að rafíþróttaliðið Synir Lúlla eru neðstir en þeir hafa ekki unnið neinn leik á tímabilinu. 

Jóhann Gunnar Þórarinsson, liðsstjóri Sona Lúlla, segir hugmyndina um þátttöku í deildinni ekki endilega hafa falist í því að sigra hana. Heldur var tilgangurinn sá að taka þátt og hafa gaman af því að spila á móti öflugu og reyndu spilurunum í deildinni.

„Við erum bara léttir sko, við vorum aðallega tveir sem vildum skella okkur og taka þátt í Dota 2-móti,“ segir Jóhann í samtali við mbl.is en sjálfur hefur hann verið að spila Dota og Dota 2 af og á í gegnum árin, eða frá því hann var u.þ.b tvítugur.

Jóhann Gunnar Þórarinsson, liðsstjóri Sona Lúlla.
Jóhann Gunnar Þórarinsson, liðsstjóri Sona Lúlla. Ljósmynd/Aðsend

Vandræði með mannskap

Hóf hann því að safna í mannskap til þess að manna liðið og voru þeir sjö í upphafi. Erfitt reyndist að fá menn til að geta spilað vikulega svo þegar leið á mótið voru þeir orðnir níu. 

Hefur því nokkuð flökt verið á leikmannahópnum þar í Dota 2 er keppt í fimm manna liðum. Það þýðir að í níu manna hópi eru fjórir leikmenn á bekknum milli leikja til þess að hoppa í skarðið ef þörf krefur.

„Það sem hefur verið einna verst í þessu er hvað okkur hefur gengið illa að manna lið þannig við höfum þurft að gefa fjölda leikja því miður.“

Nú fer að styttast í úrslitaleikina en þeir verða spilaðir í rafíþróttahöllinni Arena þann 29. janúar og verður jafnframt streymt frá þeim í beinni útsendingu.

Skíttapað en samt haft gaman

„Við höfum haft gaman að þeim leikjum sem við höfum tekið þátt í, en kannski vægast sagt skíttapað.“

Ef Synir Lúlla ákveða að taka aftur þátt á Dota 2-mót þá segir Jóhann að þeir verði betur búnir undir mótið og muni þá taka nokkrar æfingar saman sem lið áður en það hefst.

Mótastjórnin staðið sig í stykkinu

Mótastjórnin fær sérstök hrós frá Jóhanni vegna þess hve gott utanumhald hefur verið í kringum mótið og telur hann Fylki vera sigurstrangast á tímabilinu, en Fylkir hefur ekki tapað einum leik fram að þessu. 

Að sama skapi hefur Ágúst Elí Ágústsson, fyrirliði Ancient Stack, sannað sig á þessu tímabili og er, að mati Jóhanns, einn efnilegasti leikmaðurinn á mótinu.

Óhætt er að segja að fróðlegt verður að fylgjast með Sonum Lúlla, hvort þeir taki þátt í næsta móti og hvernig þeim mun ganga í framaldi. Ljóst er að leiðin liggur aðeins upp á við fyrir Syni Lúlla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert