Formaður RÍSÍ varð „smá kjaftstopp“

Eva Margrét Guðnadóttir, formaður RÍSÍ og framkvæmdastjóri Arena.
Eva Margrét Guðnadóttir, formaður RÍSÍ og framkvæmdastjóri Arena. mbl.is/Hákon Pálsson

Margt er það sem manninum er hulið og hafði Eva Margrét Guðnadóttir, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands og rekstrarstjóri rafíþróttahallarinnar Arena, ekki hugmynd um í hvað stefndi þegar hún hóf að streyma frá því þegar hún spilaði tölvuleiki fyrir um tveimur árum síðan.

„Ég hugsaði oft, djöfull væri ég til í að vinna við rafíþróttir, en vissi ekki hvernig það væri hægt. Hvernig vinnur maður í fullri vinnu við rafíþróttir? Ég vissi ekki að þetta væri orðið svona stórt hérna heima, allar þessar útsendingar og öll þessi verkefni,“ segir Eva í samtali við mbl.is.

Fyrir um tveimur árum síðan byrjaði Eva Margrét að streyma með vinkonum sínum og tvíburasystur sem streymishópurinn Babe Patrol en það var í raun upphafið að glæstum rafíþróttaferil hennar.

Streymishópurinn Babe Patrol: Alma Guðrún, Eva Margrét, Högna Kristbjörg og …
Streymishópurinn Babe Patrol: Alma Guðrún, Eva Margrét, Högna Kristbjörg og Kamila Dabrowska. Ljósmynd/RÍSÍ

Varð að alvörusjónvarpsþætti

„Við byrjuðum að streyma sem Babe Patrol sjálfar, ekki með neina tæknikunnáttu eða búnað til þess. Já, þetta var mjög lélegt hjá okkur en samt voru stundum mjög margir sem horfðu.“

Svo hafði GameTíví samband og bauð þeim að streyma fyrir sig, sem þær gerðu. Þá segir Eva að Babe Patrol hafi í raun orðið að alvörusjónvarpsþætti eftir flutninginn yfir á GameTíví.

Boðin staða hjá Rafíþróttasamtökum Íslands

Í framhaldi var Evu boðið að taka þátt í Framhaldsskólaleikum Rafíþróttasamtaka Íslands, FRÍS. Þar átti hún að koma fram í einum þætti en þegar uppi var staðið kom hún fram í nánast öllum þáttunum og var í kjölfarið boðin staða hjá RÍSÍ við ýmis framleiðsluverkefni.

Óhætt er að segja að Eva hafi fundið sinn sess í bransanum og tók hún jafnframt við af Ólafi Hrafni Steinarssyni sem formaður Rafíþróttasamtaka Íslands í október á síðasta ári. Hún hafði efasemdir um það í upphafi vegna reynsluleysis en býsna vel hefur þó gengið og sér hún alls ekki eftir ákvörðuninni.

„Það er bara svo geggjað fólk í þessum rafíþróttaheimi sem er tilbúið að hjálpa manni, kenna manni og gefa manni séns svo ég sé ekki eftir því. Það er líka bara búið að vera geggjað.“

Eva Margrét Guðnadóttir, framkvæmdastjóri Arena og formaður RÍSÍ.
Eva Margrét Guðnadóttir, framkvæmdastjóri Arena og formaður RÍSÍ. mbl.is/Hákon Pálsson

Lærir þetta jafnóðum

Vegferð Evu upp á við stöðvast þó ekki hér, heldur var henni nýlega boðið að taka við rekstri rafíþróttahallarinnar Arena og veitingastaðarins innan Arena, Bytes.

„Ég verð að viðurkenna að ég var ógeðslega hrædd að taka við þessu, af því ég hef heldur enga reynslu af því að reka fyrirtæki. En ég fæ mjög mikinn stuðning frá mínum yfirmanni og samstarfsfólkinu mínu, sem hjálpa mér að komast inn í þetta,“ segir Eva.

„Það vita allir að ég er bara að læra á fullu á sama tíma og ég er að þessu. Þetta er búið að vera ógeðslega gaman, en ógeðslega erfitt líka, en ég sé alls ekki eftir því að hafa sagt já við þessu. Það var alveg hluti af mér sem langaði að segja nei, en ég sagði já og ég sé ekki eftir því.“

Bjóst ekki við þessu

Eva segist oft hugsa til þess, og hve skrýtið það sé, að hafa byrjað að streyma frá sjálfri sér inni í herbergi að spila tölvuleiki með vinkonum sínum og vera síðan komin á þennan stað. Aðeins tveimur árum síðar.

„Ég bjóst aldrei við því að ég myndi ná svona langt í neinu, svo þetta er búið að vera mjög gott fyrir sjálfstraustið mitt líka. Bara svona persónulega.“

Eva Margrét Guðnadóttir „EvaSniper69“ með hvolp í fanginu.
Eva Margrét Guðnadóttir „EvaSniper69“ með hvolp í fanginu. Ljósmynd/Aðsend

Engan áhuga á því lengur

Í þessum mánuði útskrifast Eva með meistaragráðu í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði, en hún hefur þó engan áhuga á því í dag.

„Ætli maður hefði ekki farið á endanum í einhverja mannauðsstjórnunarstöðu, en mig langar það ekki neitt. Mér finnst það mjög óspennandi núna. Það var kannski svolítið planið, þó mig hafi í rauninni aldrei beint langað það.“

Hlakkar alltaf til að mæta í vinnuna

Það liggur augum uppi að Eva sé komin í draumastarfið sitt, nokkuð sem hún gat ekki ímyndað sér áður fyrr. Hún lýsir starfinu sem bæði skapandi og fjölbreyttu, þar sem engir tveir dagar eru eins.

„Ég hlakka alltaf til að fara í vinnuna, og ég hélt að ég yrði aldrei í vinnu sem ég hlakkaði alltaf til að mæta í. Tölvuleikir eru áhugamálið mitt og að fá að vinna við það er bara draumur sko, eitthvað sem ég vissi ekki að ég gæti gert,“ segir Eva og brettir upp á trýnið þar sem henni þykir þetta allt saman örlítið klisjukennt.

„Maður bara framkvæmir hugmyndirnar sem maður fær, og hefur frelsi til að ekki endilega gera það sem ég vil - en samt gera það sem mig langar. Skemmtilegast við þetta er samt hvað ég hef fengið að kynnast mörgu fólki, það er ótrúlega margt fólk sem er í þessu með manni.“

Eva Margrét Guðnadóttir stillir sér upp í aðstöðu Astralis í …
Eva Margrét Guðnadóttir stillir sér upp í aðstöðu Astralis í Danmörku, í blárri Astralis-treyju. Ljósmynd/Rafíþróttasamtök Íslands

Á ekki að vera auðvelt 

Að sama skapi segist Eva aldrei áður hafa borið svona mikla ábyrgð og segir hún alla reynsluna sem hún hefur öðlast á þessum stutta tíma muni nýtast henni vel í framtíðinni.

„Ég er bara stolt af Arena og RÍSÍ og fá að vera hluti af þessu, en það hafa alveg verið nokkur skipti þar sem ég fer heim að grenja eftir daginn. Bara buguð, en það er líka hluti af þessu held ég. Þetta á ekkert að vera auðvelt.“

Þegar fólk spyr hana hvað hún starfi við, hvað hún geri, þá finnst Evu oft á tíðum eins og fólk hafi ekki hugmynd um hvað rafíþróttirnar séu í raun og veru eða hve stórar þær eru hér á landi. 

„Það eru rosalega margir sem hrósa mér fyrir það sem ég er að gera, en hafa samt ekki hugmynd um hvað ég er að gera,“ segir Eva.

„Ég held að þeir sem hafa ekki komið hingað halda að ég sé bara að vinna á skrifstofu með einhverjum tíu tölvum, og fólk geti bara komið og spilað þar. Þá reyni ég að útskýra, nei þetta er allt annað.“

Vonar að það sé ekki vegna þess

Eva segir að hún upplifi enga fordóma innan geirans en segir blaðamanni þó frá áhugaverðri spurningu sem beint var að henni á fyrirlestri um rafíþróttir.

„Þá var ég spurð að því hvort ég héldi að ég væri komin svona langt í rafíþróttum vegna þess að ég er stelpa. Ég varð smá kjaftstopp og vissi ekki hvað ég átti að segja,“ segir Eva og heldur áfram.

„En ég vona að það sé eitthvað annað en það að ég sé stelpa sem hefur komið mér á þennan stað sem ég er á.“

Móttóið að segja oftar já

Í dag lítur Eva björtum augum til framtíðar, enda í nægu að snúast í kringum rafíþróttirnar, streymið með Babe Patrol og fleira.

Þá endar hún viðtalið á að segja frá því að mottóið hennar í ár sé að segja já við fleiri hlutum og að hún vonist jafnframt til þess að þetta ár verði enn betra og stærra en síðasta ár.

Hvaða eldhús fær þitt atkvæði?

  • Sigtýr Ægir
  • Móna Lind
  • Kleópatra Thorstensen
  • Birta Amarie
  • Adinda Marita
mbl.is