Mega ekki nota varamanninn

Danski leikmaðurinn k0nfig var settur á varamannalista FaZe.
Danski leikmaðurinn k0nfig var settur á varamannalista FaZe. Ljósmynd/BLAST

Fyrsta mót ársins, BLAST Premier Spring Groups er hafið en ekki hafa öll lið byrjað vel. Stórliðið FaZe er einungis með fjóra leikmenn skráða til leiks eftir að leikmaður þeirra „Rain“ dró sig úr keppni til þess að vera viðstaddur fæðingu barnsins síns.

FaZe tilkynnti fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum að danski Counter-Strike leikmaðurinn „k0nfig“ myndi spila með liðinu sem varamaður og var k0nfig mættur til Danmerkur og búinn að taka þátt í fjölmörgum viðburðum í undirbúningi fyrir mótið, svo sem myndatökudag og leikmannakynningum.

Þurfa lengri tíma

Önnur lið á mótinu mótmæltu því að FaZe hafi fengið að kynna inn nýjan varamann svo stuttu fyrir mót en fyrir mót var FaZe búið að setja spilarann „olofmeister“ á varamannalistann sinn.

Hin liðin á mótinu segja ósanngjarnt að liðið fái að kynna inn nýja leikmenn rétt fyrir mót þar sem þau hafa ekki fengið tíma til þess að kynna sér leikstíl leikmannsins.

Á einni nóttu breyttist því allt fyrir FaZe.

Liðið fór frá því að vera klárt í mót í það að vera einungis með fjóra leikmenn tilbúna. Mótshaldarinn BLAST hefur dregið leyfi k0nfig til baka og sagt ástæðuna vera að hann sé ennþá skráður í annað lið eftir að hann keppti sem varamaður á síðasta móti.

Olofmeister sagði á Twitch-streymi sínu að hann hefði ekki verið var við að vera varamaður FaZe og engin samskipti hafi verið á milli hans og liðsins, því hafi þetta komið honum í opna skjöldu.

Ekki er víst hvernig þetta mál fer en fyrsti leikur FaZe á mótinu er í dag klukkan 11.00.

mbl.is