Gætu brotið blað í sögu keppnissenunnar

Lið Fylkis. Á myndinni má sjá liðsmennina í DOTA og …
Lið Fylkis. Á myndinni má sjá liðsmennina í DOTA og yfirþjálfara Fylkis, Sigurð Bjarka. Ljósmynd/Rakel Guðmundsdóttir

Spennan er orðin gríðarleg í Kraftvéladeildinni þar sem síðar í kvöld verður ljóst hvaða Dota 2-lið kemur sér upp úr neðra leikjatrénu og í undanúrslitin sem fara fram annað kvöld. Það lið mætir þá hugsanlega Fylki í úrslitaleik deildarinnar en hann verður spilaður sama kvöld.

Lið í neðra leikjatré deildarinnar hafa hamast á lyklaborðinu í allan dag í von um að tryggja sér sæti í undanúrslitunum sem fara fram í rafíþróttahöllinni Arena annað kvöld.

Vert er að nefna að Fylkir hefur enn ekki tapað leik á mótinu og væri sigur þeirra á mótinu því ansi merkilegur áfangi. Þá ekki aðeins fyrir íþróttafélagið Fylki, heldur kæmist það einnig í sögubækurnar um íslensku keppnissenuna í Dota 2.

Segir Kórdrengina vera seiga

Í samtali við mbl.is segir Róbert Örn Vigfússon, leikmaður Fylkis, að „þeir séu allir helvíti kátir og léttir á því“ yfir þessu. Þá grunar hann að þeir muni mæta Kórdrengjum í úrslitaleiknum.

„Þeir eru búnir að vera helviti seigir, ég býst við erfiðum leikjum frá þeim. Við erum búnir að keppa á móti þeim tvisvar áður og unnið á móti þeim í bæði skiptin,“ segir Róbert í samtali við mbl.is.

„Annars held ég að við tökum þessa deild með stæl og glensi.“

Kraftvéladeildin í Dota 2.
Kraftvéladeildin í Dota 2. Grafík/Dota á Íslandi

Koma, sjá og sigra  - kannski

Er þessi lokasprettur Kraftvéladeildarinnar því ansi spennandi og þá sérstaklega fyrir Fylki, en þetta er í fyrsta skiptið sem keppt er undir merkjum Fylkis í deildinni.

Undanúrslitin sem og úrslitin fara fram, sem fyrr segir, í rafíþróttahöllinni Arena annað kvöld og verður sýnt frá leikjunum á stóra skjánum allan daginn. Áætlað er að fyrstu leikirnir hefjist í hádeginu, upp úr klukkan 12:30.

Hlustar þú á tónlist þegar þú spilar?

  • Já að sjálfsögðu
  • Nei alls ekki
  • Stundum og stundum ekki
mbl.is