Stefnir í jafnmarga leikmenn og á meðan faraldrinum stóð

Counter-Strike: Global Offensive.
Counter-Strike: Global Offensive. Grafík/Valve

Virkum leikmönnum í Counter-Strike: Global Offensive fjölgar nú ört en með þessu áframhaldi verða virkir leikmenn fljótlega jafnmargir og var í miðjum Covid-faraldrinum.

Á meðan fólk sat fast heima vegna faraldursins tóku margir upp á því að spila meira af tölvuleikjum, sem varð til þess að leikmannahópur margra tölvuleikja stækkaði til muna. Að sama skapi fækkaði leikmönnum þegar heimsbyggðin fékk frelsi sitt á ný eftir að takmörkunum yfirvalda var aflétt.

Nú virðast leikmenn hins vegar vera að leggja leið sína aftur inn í hinn stafræna heim með byssurnar á lofti. Leikmönnum í tölvuleiknum CS:GO hefur fjölgað ansi hratt upp á síðkastið og stefnir í  að þeir verði brátt jafnmargir og þegar á faraldrinum stóð.

100.000 leikmönnum færri

Samkvæmt SteamCharts var þessi mánuður mjög góður fyrir Valve þar sem fjöldi virkra leikmanna á sama tíma náði upp í tæplega 1,2 milljónir einn sólarhringinn. Það er ekki nema 100.000 leikmönnum undir metinu, sem var sett í apríl 2020.

Í janúar hefur daglegum leikmönnum í CS:GO fjölgað um 14,5% að meðaltali, en það þýðir að um það bil 91.000 fleiri leikmenn en áður spila leikinn daglega. Þá spiluðu rúmlega 720.000 leikmenn að meðaltali leikinn daglega í janúar, en tæplega 630.000 að meðaltali í desember.

Þeim leikmönnum sem spiluðu Counter-Strike: Global Offensive daglega, fjölgaði um …
Þeim leikmönnum sem spiluðu Counter-Strike: Global Offensive daglega, fjölgaði um 14,5% frá því í síðasta mánuði. Skjáskot/steamcharts

Margar ástæður 

Óvíst er hver skýringin er á þessari gríðarlegu fjölgun, en ýmsar ástæður gætu verið fyrir því. Hugsanlega er það vegna þess að ný tímabil í keppnissenunni fara að hefjast, vortímabil stórmótsins BLAST Premier var að klárast eða jafnvel vegna þess að önnur stórmót, eins og IEM Katowice og EPL S17, eru á döfinni.

Með þessu áframhaldi má búast við því að fjöldi virkra leikmanna verði fleiri en nokkurn tímann áður, en núverandi met virkra leikmanna í CS:GO, sem sett var í apríl 2020, sem fyrr getur, nemur 1,3 milljón einstaklingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert